top of page

Þurfum við margar bankabækur?

  • Writer: Björn Berg Gunnarsson
    Björn Berg Gunnarsson
  • Jun 30
  • 3 min read
Íslenskir peningaseðlar

Það er fljótafgreitt og sáralítið mál að bæta við sparnaðarreikningum. Í öppum og netbönkum má, án endurgjalds, opna fjölda reikninga og gefa hverjum og einum þeirra nafn við hæfi.


Hvaða máli skipta nöfnin?


Er ekki í góðu lagi að eiga marga reikninga sem heita Ávöxtun? Eða Markmið, Auður, Sparibaukur, Vöxtur osfrv.? Nei, ég er hrifnari af skýrari og fleiri nöfnum. Við opnum þessar bankabækur vegna þess að við ætlum að hefja skipulagðan og reglulegan sparnað. Með því að endurnefna reikningana verða markmið sparnaðarins sýnilegri, við fylgjumst betur með árangri hans og eigum auðveldara með að skipuleggja þau útgjöld sem sparnaðinum er ætlað að fjármagna.


Einn mikilvægasti þáttur í fjárhagslegu öryggi okkar er að greitt sé fyrir það sem keypt er. Við tökum ekki neyslulán. Við greiðum ekki síðar, með greiðsludreifingum. Neyðarsjóðurinn tryggir okkur svigrúm við óvænt áföll en fjölmörg útgjöld ættu að vera fyrirsjáanleg. Fyrir þeim spörum við í hverjum mánuði, með sjálfvirkum hætti.


Sparnaðinum stillt upp


Í netbanka eða appi eru reikningarnir stofnaðir og sparnaðurinn skráður, svo mánaðarlega sé millifært af launareikningi á tilætlaðan sparnaðarreikning. Þannig tryggjum við að þegar á þarf að halda bíður fjárhæðin eftir okkur og við greiðum það sem greiða þarf. Flóknara er það ekki, en við þurfum þó að stilla upp hverjum og einum sparnaði.


Dæmi um reglulegan sparnað


Lítum á nokkur dæmi um algengan sparnað.


Jólin

Björn Berg á Rás 2
Umræða um jólasparnað á Rás 2

Kortavelta er að jafnaði um 20% meiri í desember en aðra mánuði ársins. Jólin geta verið ansi dýr, en þau eru árleg og því ætti að vera lítið mál að áætla hentugan sparnað á jólareikningi. Í skemmtilegri grein DV árið 2018 var áætlað að jólin gæru kostað fjögurra manna fjölskyldu um 200.000 kr., en það eru um 280.000 kr. á verðlagi dagsins í dag. Það er nokkuð dæmigert fyrir það sem áætlað hefur verið í öðrum fjölmiðlum hér á landi og erlendis.

Jólasparnaður: 10.000 kr. - 25.000 kr. á mánuði, eftir fjölskyldustærð

Bíllinn

Bílar kunna oft að vera nauðsynlegir, en þeir rýrna í verði, eru dýrir í rekstri og þegar bílalán eru tekin eykst kostnaður til muna. Því tökum við ekki bílalán heldur spörum fyrir endurnýjun á nokkurra ára fresti, hvort sem við ætlum að halda okkur við svipað verðlagðan bíl og áður eða ekki.


Segjum að fyrir 5,5 milljóna króna bíl fáist 2 milljónir að 5 árum liðnum. Ætlum við þá að endurnýja bílinn þurfum við að safna 3,5 milljónum króna á þessu 5 ára tímabili. Það er ekki lögmál að hér á landi þurfi allir að taka bílalán, en þá þarf að spara.

Bílasparnaður: 50.000 kr. á mánuði

Ferðalög

Það ætti að vera óþarfa ósiður að dreifa greiðslukortareikningi við komuna heim úr fríi. Það eru ekki verri timburmenn í boði. Stillum þess í stað upp reglulegum sparnaði á ferðareikning og njótum frísins áhyggjulaus.

Ferðalagasparnaður fyrir 500.000 kr. fríi á ári: 40.000 kr. á mánuði

Hússjóður

Það kostar að eiga þak yfir höfuðið, enda dýrt að skipta um glugga, endurnýja heimilisbúnað, mála og fleira. Mörg heimili leggja reglulega fyrir í hússjóð svo alltaf sé til fyrir minniháttar framkvæmdum. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að spara skipulega fyrir stærri framkvæmdum.

Hússjóður: 10.000 - 20.000 kr. á mánuði

Með því að láta netbankann eða appið um þennan reglulega sparnað léttum við okkur lífið svo um munar án mikillar fyrirhafnar. Við fáum greidda vexti á meðan við söfnum og losnum við skaðlegan kostnað af neyslulánum sem annars hefðu mögulega verið tekin. Við getum leyft okkur meira þegar árin líða, en fjárhagslegu áhrifin geta til framtíðar orðið umtalsverð, enda eykur reglulegur sparnaður þegar upp er staðið svigrúm í heimilisrekstri og sparar háar fjárhæðir.


En ekki má vanmeta andlegu áhrifin. Fjárhagsvandræði og óvænt fjárútlát eru með skaðlegri streitu- og kvíðavöldum. Okkur líður betur með öruggari og fyrirsjáanlegri heimilisfjármálum.


Eftir hverju ertu að bíða? Farðu nú að skipuleggja þig, rífðu svo upp appið og fylgstu með peningunum rúlla inn á reikningana.



Viltu fá fróðleik eins og þennan sendan reglulega í tölvupósti? Skráðu þig á póstlista.

bottom of page