Hvernig bý ég mig undir barneignir?
- Björn Berg Gunnarsson
- Jan 16
- 4 min read

Björn Berg svarar spurningum lesenda Vísis
27 ára kona spyr:
„Hvernig er best að haga fjárhag í aðdraganda barnseigna? Ég á von á mínu fyrsta barni og vil bæði huga að því hvernig ég fjárfesti í framtíð barnsins t.d. á reikningi sem og hvað ég get gert sem verðandi foreldri sem undirbýr stækkandi fjölskyldu fyrir fjárhagslegar áskoranir sem fylgja barni.“
Það breytist allt þegar barn kemur í heiminn. Fátt krefst meiri orku af fólki en að verða foreldrar og þú munt þurfa hvern einasta orkudropa þegar fjölgar á heimilinu. Þá þarft þú að takast á við hinar ýmsu áskoranir og álagið verður mikið meira en nóg án þess að fjárhagsáhyggjur bætist þar enn frekar við. Með góðum undirbúningi og nægum fyrirvara getur þú þó lágmarkað líkurnar á því að fjármálin þvælist fyrir og virkilega notið þess tíma sem þú átt með barninu.
Mér þótti sérlega ánægjulegt að lesa þessa spurningu frá þér þar sem hún gefur til kynna að þú sért að sýna fyrirhyggju sem mun á efa reynast þér vel. En hvað ætli sé nú gott að hafa í huga?
Hvað þarf að vera til?
Var ég búinn að nefna að allt sé að fara að breytast? Eitt af því er plássið í geymslunni, stofunni, svefnherberginu, þvottavélinni…. Það þarf að kaupa hitt og þetta. Heimilisvefurinn hefur tekið saman ljómandi góðan tékklista yfir það sem gott getur verið og nauðsynlegt að festa kaup á. Þarna er auðvelt að fara fram úr sér, enda virðist fátt kosta færri en einn tíu þúsund króna seðil og þeir geta verið fljótir að fara. Freistaðu þess að draga stórlega úr þessum kostnaðarlið, samhliða því að tryggja að allt verði til staðar.
Líttu á listann uppi í sófa og kynntu þér hvað þetta kostar allt saman. Farðu á vefinn og sjáðu hvað hægt er að fá gefins og hvað má kaupa notað. Annað gæti farið á óskalista, því svo skemmtilega vill til að jólin eru á næsta leyti. Sömuleiðis mun fólk í kringum ykkar kannski vilja gleðja ykkur þegar barnið kemur heim og þá er gott að geta dregið listann upp úr vasanum og sagt „gaman að þú skulir spyrja!“.
Fjármál barna og unglinga
Gagnlegt og skemmtilegt foreldranámskeið um fjárhagslegt uppeldi barna.
Námskeiðið er í boði fyrir hópa og vinnustaði.
Tekjufall
Flestir foreldrar taka fæðingarorlof og getur sá tími sannarlega verið yndislegur, en við þurfum þó að passa upp á að við höfum fjárhagslegt svigrúm til þess. Það er líklegt að tekjur lækki eitthvað í orlofinu og þá reynir á að þú getir bæði rekið þitt heimili á þeim tekjum sem von er á sem og mætt þeim kostnaði sem orlofinu fylgir. Þú vilt alls ekki frysta greiðslur af lánum eða taka ný lán nema í mjög litlu mæli ef þið eruð í brýnni neyð. Markmiðið er þó að sjálfsögðu að engin þörf verði á slíku og þeim kostnaði sem af slíku hlýst.
Því miður hefur sá misskilningur náð nokkurri útbreiðslu að eðlilegt sé að frysta lánagreiðslur og eyða heilmiklum fjármunum í hreiðurgerð og útlandaferðir í fæðingarorlofinu en vertu meðvituð um að slíkt getur orðið veruleg fjárhagsleg byrði á þér til framtíðar.
Kynntu þér því vel fæðingarorlofskerfið og hvernig vinnan þín hyggst koma til móts við þig svo þú vitir hverjar tekjurnar verða og hægt sé að tryggja að fjármálin verði í lagi. Teiknaðu svo upp heimilisbókhald sem inniheldur þær tekjur og allan fyrirsjáanlegan kostnað og tryggðu að bókhaldið gangi upp. Ef áætlunin lítur ekki nógu vel út skaltu athuga hvort hægt sé að byrja að búa í haginn í dag með því að draga verulega úr útgjöldum og safna í lítinn varasjóð.
Framtíðin
Eitt af því sem einkennir börn er að flest vaxa þau allt of hratt. Þér mun kannski ekki finnast tíminn líða mjög hratt þær andvökunætur sem nær óumflýjanlega fylgja fyrstu vikunum en allt í einu þarf að kaupa meira og fleira og stærra og allt kostar þetta peninga. Þá reynir á að vel sé fylgst með því sem nálgast má notað og að óþarfi sé seldur. Þannig má spara stórar fjárhæðir.
En fyrr en varir vakna spurningar: Kemst barnið til dagforeldris? Kemst það á leikskóla? Hvenær og hvert? Hvernig kemur þetta til með að samræmast vinnu orlofi, samgöngum, aðstoð frá ættingjum og ekki síst fjárhag þínum? Kynntu þér hvað þetta kemur til með að kosta, hvort færa þurfi einhverjar fórnir (svo sem í tekjum) ef allt fer ekki að þínum óskum og vertu viss um að þú vitir af áhrif þess á heimilisbókhaldið. Sama hvernig fer er mikilvægt að þú lendið ekki í fjárhagskröggum.
Sparnaður fyrir barnið
Það gleður mig að þú sért strax farin að huga að fjárhagslegri framtíð barnsins þíns. Á þessum vettvangi svaraði ég spurningu 34 ára föður á dögunum sem var einmitt að forvitnast um það hvernig best væri að spara fyrir börn. Hér getur þú séð hvernig ég svaraði honum.
Hafðu samt í huga að besti fjárhagslegi stuðningurinn sem þú getur veitt barninu þínu er að þinn fjárhagur sé heilbrigður og vel skipulagður. Ef þú tileinkar þér góða siði í þínum fjármálum skilast þeir með móðurmjólkinni og sem góð fyrirmynd getur þú alið upp barn sem verður fullfært um að standa á eigin fótum síðar meir.
Hvað ef?
Ég hef enga trú á öðru en að þetta verði ykkur gæfuríkur og góður tími. En þetta er nýtt. Fjölskyldan er að stækka og þú munt bera ábyrgð á öðru lífi. Því fylgja alltaf áhyggjur og sterk ábyrgðartilfinning og það verður ekki alltaf allt fyrirsjáanlegt.
Með vel skipulögðum heimilisfjármálum, varasjóði og svigrúmi í mánaðarlegum rekstri heimilisins (eyddu minna en þú þénar) getur þú einbeitt þér enn betur að barninu. Ef illa gengur að komast að hjá dagforeldri, taka þarf lengra orlof, óvæntur kostnaður bætist við o.s.frv. munar öllu að hafa fjárhagslegt svigrúm. Hafðu það sérstaklega í huga við undirbúninginn.
Gangi þér allt í haginn, ég vona svo sannarlega að allt gangi að óskum!


