Eru þetta áramótaheitin 2026? 5 skref til að ná betri tökum á fjármálunum
- Björn Berg Gunnarsson
- 7 days ago
- 6 min read

„Ég sá þig ekki í ræktinni í morgun!“ var hreytt í mig þegar ég mætti í vinnuna 2. janúar á þessu nýja og fína ári 2026. Það á greinilega að taka sig í gegn.
Dagatalið sparkar rækilega í rassinn á okkur um áramót. Við viljum gera betur, ekki síst varðandi heilsu og fjármál. Nú þegar verðbólga og vextir eru enn til vandræða og atvinnuleysi hefur aukist er rík áhersla til að taka til í fjármálum heimilsins. Áramótin geta vakið upp vonbrigði og eftirsjá þegar litið er um öxl en sömuleiðis vonandi eilítla hvatningu og tilhlökkun um að að tryggja betri árangur þetta árið. Áramótaheit eru því vinsælt umræðuefni, en ef ná á raunverulegum árangri er mikilvægt að vanda valið og stilla upp áætlun, svo heitin verði ekki í plastinu út árið eins og jólagjöf frá tengdó.
Rík ástæða til
Að þessu sinni ætlum við að gera þetta almennilega og setja okkur metnaðarfull markmið hvað fjármálin varðar. Blikur eru á lofti í efnahagsmálum, viðskiptum og ekki síst persónulegum fjármálum Íslendinga. Atvinnuleysi hefur aukist mikið, skattar hækkað og vextir eru enn til vandræða, sem og verðbólga. Því er rík áhersla til að taka til, koma upp fjárhaglegu svigrúmi og tryggja sig betur fyrir mögulegum sveiflum.
Lítum á 5 af vinsælustu áramótaheitunum og hvernig við tryggjum að þau nái fram að ganga.
1: Gerðu sparnaðinn sjálfvirkan – áður en þú eyðir honum
Í flestum könnunum og fréttum, þar sem litið er til algengra áramótaheita, er aukinn sparnaður nær toppi listans. Þegar harðnar í ári eykst þörf fyrir lausafé og sparnað og því er þetta tilvalið heit þetta árið.
Hvernig?
Þetta er auðveldasta áramótaheitið í framkvæmd. Þú þarft bara að hefjast handa við og halda það út.
Þú byrjar á að ákveða fyrir hverju á að spara, hvað það mun kosta og hvenær fjárhæðin þarf að vera aðgengileg. Dæmi um slíkt er sparnaður fyrir jólaútgjöldum, ferðalögum, viðhaldi, námi, húsnæði og endurnýjun raftækja og bíla.
Stofnaðu sparnaðarreikning fyrir hverjum og einum sparnaði og nefndu hann nafni sparnaðarins.
Notaðu sparnaðarreiknivél til að reikna út fjárhæðir eða tímalengdir. Kosta jólin 120.000 kr. ár ári? Þá þarftu að leggja 10.000 kr. fyrir á mánuði.
Stilltu reglulegan sparnað í appinu eða netbankanum svo sparnaðurinn sé millifærður mánaðarlega af launareikningi þínum á sparnaðarreikningana. Athugaðu að forsenda þess að þú munir halda sparnaðinn út er að hann verði gerður sjálfvirkur.
2: Náðu tökum á útgjöldunum
Er kannski svigrúm til að nýta tekjurnar okkar betur? Hvers vegna gekk síðasta ár ekki betur? Var það kannski vegna þess að við höfðum ekki nægilega góða stjórn á útgjöldum heimilisins?
Hvernig?
Með því fyrsta sem börnum er kennt í fjármálalæsi er að raða útgjöldum í þau sem nauðsynleg eru og þau sem okkur langar að geta leyft okkur. Þegar við erum upptekin við daglegan rekstur heimilis okkar hættir okkur til að gleyma því að passa upp á útgjöldin, svo lengi sem mánaðarmótin valda ekki vandræðum eða kvíða. En nú ætlum við að gera betur.
Taktu saman öll útgjöld síðasta árs og sundurliðaðu þau. Þú getur notað öpp, forrit eða síður á borð við Meniga til aðstoðar, en það er erfitt að gera betur ef við vitum ekki hvað það er sem við viljum bæta.
Teiknaðu upp nýtt sundurliðað heimilisbókhald þar sem tekjum þínum er forgangsraðað og fjárhæðir ákveðnar fyrirfram. Dæmi um það er að skrifa niður fastan rekstrarkostnað heimilisins, matarútgjöld, skemmtanir og afþreyingu, persónuleg útgjöld á borð við hárgreiðslu, föt og fleira og fleiri útgjaldaliði.
Færðu bókhaldið mánaðarlega inn í þar til gert skjal til utanumhalds, t.d. heimilisbókhald Umboðsmanns skuldara (.xls).
3: Sólarhringsreglan: Einfaldasta leiðin til að stöðva hvatvís innkaup
Í Aftonbladet í Svíþjóð er mælt með með 24 stunda umhugsunarfresti áður en ákvörðun er tekin um kaup á vörum og þjónustu. Þetta er margreynd aðferð sem ég heyri nefnda nokkuð reglulega og virðist töluverður fjöldi Íslendinga beita henni til að draga úr hvatvísum innkaupum og hemja þar með útgjöldin.
Þessi fyrirframákveðna bið minnir alltaf á skemmtilegt samtal sem ég átti við knattspyrnumann sem lék á sínum tíma undir stjórn Bob Paisley hjá Liverpool á Englandi. Paisley hafði þá skýru reglu að ekki mátti kvarta yfir spilatíma, innáskiptingum eða nokkru öðru á leikdegi, þar sem hann þyrfti að einbeita sér að leiknum. „Skrifaðu þetta á miða og láttu mig fá hann á æfingu á morgun svo við gleymum ekki að ræða málin“ sagði hann og sló þar með vopnin úr pirruðum strákunum og lækkaði hitann í klefanum. Ó, hve oft leikmaðurinn skrifaði miða, en hann afhenti þá aldri. Bræðin, æsingurinn, tilfinningarnar höfðu runnið af honum.
Þetta sama á við þegar við frestum ákvörðun um innkaup. Ef vil vill hefur kaupæðið runnið af okkur og í ljós kemur að um óþarfa er að ræða.
Hvernig?
Hér erum við ekki að ræða um kaup á lyfjum eða grjónagraut. En lofaðu þér, í tilefni nýja ársins, að áður en nokkuð er keypt sem ekki myndi flokkast sem nauðsynlegt í heimilisbókhaldinu, verði dokað við í sólarhring hið minnsta.
Sérðu fallega úlpu í Kringlunni? Mátaðu hana, snúðu þér í hring við spegilinn, brostu framan í afgreiðslufólki og segðu „takk! Ég ætla að hugsa málið!". Það sama gildir við kaup á vefnum. Fyrir alla muni stjörnumerktu það sem þér líst vel á, eða settu það í körfuna. En ekki ljúka við kaupin. Skráðu þig aftur inn á síðuna eða appið degi síðar, eftir að hafa sofið á ákvörðuninni.
4: Losnaðu við lánin
Þetta áramótaheit sjáum við í nær öllum könnunum, enda er niðurgreiðsla ein hagkvæmasta leiðin við að bæta fjármál heimilisins. Niðurgreiðsla skulda skilar strax auðveldlega mælanlegum árangri, er arðbær, örugg, skattfrjáls og krefst engrar kunnáttu eða þekkingar. Því er tilvalið áramótaheit að lofa sjálfum sér að skuldastaðan verði mun betri við næstu áramót en þau síðustu.
Hvernig?
Sem fyrr er lítið gagn af áramótaheitum sem ekki er staðið við og því þurfum við að finna leið til að greiða lánin niður með sem minnstri fyrirhöfn og helst sjálfvirkt. Einföld leið gæti hreinlega verið að óska eftir styttingu á lánstíma, en þá aukast afborganir og lánið lækkar hraðar en áður.
Það getur þó verið mikilvægt að krækja í fyrsta sigurinn sem fyrst. Því hefur snjóboltaaðferðin gagnast mörgum, en með henni ráðumst við að fullum krafti á minnsta lánið okkar. Þegar það er horfið veltum við greiðslubyrði þess auk fyrra svigrúms yfir á næstminnsta lánið og svo koll af kolli. Þannig vex sá snjóbolti sem greiðir lánin okkar niður og árangurinn verður tilfinnanlegur.
Hér eru nokkrir molar héðan af síðunni til að koma þér af stað:
5: Hugaðu loks að lífeyrismálunum og veldu það sem þér hentar
Víða er mælt með auknu framlagi til lífeyris, en lífeyriskerfi eru ólík milli landa og valkostirnir oft mjög ólíkir því sem okkur bjóðast hér á landi.
Þarna eru þó stóru fjárhæðirnar og eins gott að hafa allt á hreinu. Ertu að greiða 4% eigið framlag í viðbótarlífeyrissparnað? Ættir þú að skrá þig í tilgreinda séreign? Máttu velja þér lífeyrissjóð og hefur þú forsendur til að velja þann sem hentar þér? Veistu í hvað stefnir með lífeyrisréttindi þín og séreign?i
Hvernig?
Líttu á stöðuna á vef þíns lífeyrissjóðs. Þar ættir þú bæði að geta framreiknað réttindi þín og séð heildarstöðuna hjá öllum sjóðum. Reiknaðu sömuleiðis út viðbótarlífeyrissparnaðinn og athugaðu hvort verið sé að ávaxta hann eins og þér hugnast.
Á lífeyrissíðu vefsins má sjá fjöldan allan af fróðleik um lífeyrismál sem kemur þér áleiðis í þessari vinnu. Taktu þér tíma í að læra það sem nauðsynlegt er um þinn lífeyri svo þú getir svarað eftirfarandi spurningum:
Er ég að byggja upp viðbótarlífeyri með hætti sem hentar mér?
Ef ég má velja mér lífeyrissjóð, er ég í þeim sem hentar mér best?
Er ég í hentugustu ávöxtunarleiðinni?
Þarf ég að bæta við séreign eða tryggingar?
Veit ég í hvað stefnir þegar ég verð eldri og þykir mér það nægja?
Ertu þegar að sækja lífeyri eða að undirbúa lífeyristöku? Kynntu þér þá þær breytingar sem urðu um áramótin, svo þú sért með allt á hreinu.
Hafa sölumenn haft samband og boðið þér lífeyristengdar vörur eða tryggingar? Rætt var um slíka sölumennsku og hvað ber að varast í Kastljósi á dögunum.

