Lækka stýrivextir 21. maí?
- Björn Berg Gunnarsson
- May 15
- 2 min read

Við fjórar síðustu ákvarðanir sínar hefur peningastefnunefnd Seðlabankans kosið að lækka stýrivexti. Þeir eru nú 1,5 prósentustigum lægri en þegar þeir fóru hæst vegna þrálátrar og hárrar verðbólgu. En hvað gera nefndarmenn 21. maí næstkomandi, þegar greint verður frá ákvörðun um stýrivexti í síðasta skipti fyrir sumarfrí?
Ekki allir sammála
Stýrivöxtum hefur verið haldið háum til að freista þess að draga úr verðbólgu. Það tók tíma en hefur þó borið árangur og dregið hefur úr hækkun vísitölu neysluverðs og væntingum um verðbólgu í framtíð. Því hefur nefndin kosið að þoka vöxtum niður og nokkur samhljómur verið meðal greiningaraðila og annarra um vænta þróun vaxta að undanförnu.
Nú er þó annað uppi á tengingnum og talsvert ber á milli í væntingum um stýrivaxtaákvörðun maímánaðar.
Markaðsaðilar bjartsýnir
80 aðilar á markaði svöruðu könnun Viðskiptablaðsins um ákvörðunina sem birt var 14. maí. Athygli vekur að 71 af 80 aðspurðum telur vexti munu lækka. 65% allra telja 0,25 prósentustiga lækkun líklegasta, 23% 0,50 punkta lækkun og aðeins 10% að vextir haldist óbreyttir. Von er á niðurstöðu könnunar Innherja eftir helgi.

Fyrstu viðbrögð greiningardeildar Landsbankans við síðustu verðbólgutölum voru að litlar líkur væru á vaxtalækkun 21. maí og nýverið birti Greining Íslandsbanki stýrivaxtaspá sína þar sem spáð er óbreyttum vöxtum. Þó er tekið fram að talsverðar líkur séu einnig á lítilsháttar lækkun. Í röksemdarfærslu fyrir spáni segir:
„þrálátur verðbólguþrýstingur, háar verðbólguvæntingar og merki um seiglu í innlendri eftirspurn munu trúlega vega þyngra en vísbendingar um minnkandi spennu á vinnumarkaði og fasteignamarkaði.“
Almenningur óviss
Leitast var eftir væntingum almennings með könnun á Facebook síðu Björns og í hópnum Fjármalatips. Yfir 800 manns tóku þátt og voru niðurstöðurnar mjög ólíkar því sem fram kom í könnun Viðskiptablaðsins.

Eins og sjá má spáir tæpur helmingur óbreyttum vöxtum. Það má velta vöngum yfir því hvað kanna að skýra svo ólíka sýn almennings, greiningaraðila og markaðsaðila á vaxtaákvörðuna, en vissulega lækkaði Væntingavísitala Gallup töluvert við síðustu birtingu. Auk þess hefur fréttaflutningur um ástand á alþjóðamörkuðum verið afar neikvæður og eflaust dregið úr bjartsýni á efnahagsástandið almennt.
Eftir ákvörðunina þurfum við að bíða til 20. ágúst eftir þeirri næstu. En förum við inn í sumarið með lægri vexti? Við þurfum víst að láta okkur hafa óvissuna og leyfa Ásgeiri Jónssyni að segja okkur það 21. maí.
Uppfært: Landsbankinn hefur birt stýrivaxtaspá og spáir óbreyttum vöxtum