Dýrustu framkvæmdirnar framundan í breskri knattspyrnu
- Björn Berg Gunnarsson
- Sep 2
- 7 min read

Það kostar sitt að græða, ekki síst í fótbolta. Sífellt er leitað leiða til að auka tekjur á leikdegi og þá getur þurft að fjárfesta í endurbótum, stækkunum eða jafnvel splúnkunýjum leikvöngum. Á Bretlandseyjum stendur mikið til þessa dagana og fjöldinn allur af áhugaverðum framkvæmdum í pípunum.
Nokkrar ástæður geta verið fyrir þeim framkvæmdum sem ráðist er í og má þar nefna aukna þjónustu við betur borgandi gesti. Í stað þess að selja staka miða í stúku hefur færst í aukana að félög leggi áherslu á sölu pakkaferða á völlinn, eða svokallaðra „hospitality“ miða. Áhorfendur mæta þá fyrr á völlinn, í einkasvítu eða veitingastaði á vellinum, gæða sér á veitingum, hlýða á dagskrá og njóta umfangsmeiri upplifunar en aðeins fótboltaleiksins. Ekki er ólíklegt að áætlanir um aukna sölu á slíkum miðum sé helsti drifkraftur umfangsmikilla fjárfestinga í knattspyrnuleikvöngum í dag og einn helsti vaxtarbroddur í tekjum félaga.
Þegar sífellt er uppselt á leiki freistast félög svo oft til að fjárfesta í stækkun leikvanga. Áhugi útlendinga á breskum fótbolta eykst í sífelldu og með bættum árangri geta sum félög ekki annað eftirspurn. Þá getur verið erfitt að ákveða hvort hagkvæmara sé að reisa nýjan leikvang eða bæta þann gamla þegar þörf er á nútímavæðingu, stækkun eða jafnvel þegar nýbygging getur auðveldað aðrar hagkvæmar fjárfestingar og framkvæmdir.
Hér má sjá nokkrar af áhugaverðustu framkvæmdunum sem framundan eru eða nú standa yfir á Bretlandi, ásamt því hver áætlaður kostnaður þeirra er í pundum sem og verklok.
Birmingham City

Í næstfjölmennustu borg Englands hefði maður ekki talið nokkurn skort á stórum knattspyrnuvöllum en því eru bandarískir eigendur Birmingham City aldeilis ekki sammála.
Umfangsmestu og dýrustu framkvæmdir sem áætlaðar eru þar í landi er þriggja milljarða punda íþróttasvæði og stórglæsilegur 62.000 sæta leikvangur fyrir félagið.
Verði af byggingu vallarins verður hann sá dýrasti í sögu enskrar knattspyrnu, sem er nokkuð merkilegt fyrir félag sem ekki hefur leikið í efstu deild í 14 ár.
Manchester United

Old Trafford er einn tilkomumesti leikvangur heims, en þykir þó kominn til ára sinna. Takmarkaðir möguleikar eru á sölu miða með innifalinni dagskrá og mat, sem er ein helsta tekjulind knattspyrnuliða í dag og þá yrði kostnaður við lagfæringar og nútímavæðingu vallarins afar mikill. Því er stefnt að því að reistur verði nýr völlur við hlið þess gamla.
Áætlað er að Nýi-Trafford muni kosta um 2 milljarða punda, hann taki 100.000 áhorfendur í sæti og verði því stærsti íþróttaleikvangur Bretlandseyja og sá næst stærsti í Evrópu, rétt á eftir endurbættum Nou Camp í Barcelona.
Luton Town

Luton nýttu tímabilið sitt í ensku úrvalsdeildinni vel. Gengi liðsins hefur vissulega verið afleitt frá því leikið var á Kenilworth Road í deild þeirra bestu en vel hefur verið haldið um budduna og sagt er að hægt verði að staðgreiða allt að helming framkvæmdakostnaðar við nýjan og glæsilegan leikvang.
Power Court verður nútímalegur völlur, nær miðbæ Luton og gefur færi á umtalsvert hærri tekjum á leikdegi.
Ekki verður lengur hægt að ganga inn á völlinn í gegnum garðinn og undir þvottasnúrum nágrannanna, en glæsilegur verður hann.
Manchester City

City of Manchester völlurinn (síðar kenndur við Etihad) var reistur sem fjölíþróttavöllur með hlaupabraut, en hefur tekið miklum breytingum til hins betra á undanförnum árum. Svæðið í kringum leikvanginn verður þó seint sagt sjarmerandi, en nú á heldur betur að bæta aðkomu og upplifun gesta.
Samhliða stækkun stúku um 6.000 sæti verður fjárfest í glæsilegri aðstöðu til sölu varnings og veitinga svo leikdagur verði hvergi betri en á Etihad vellinum.
Ekki er útilokað að enn frekari breytingar verði gerðar á svæðinu í framtíðinni, en með breytingunni mun liðið geta tekið við um 60.000 gestum á leikdegi.
Crystal Palace

Góðum árangri Palace í enska boltanum gæti fylgt stórglæsileg framkvæmd. En öllu má nú ofgera og virðist fyrirhuguð stækkun aðalstúkunnar í uppnámi vegna kostnaðar.
Nú er rætt hvort stækka skuli núverandi stúkubyggingu eða hvort jafnvel sé hagkvæmara að jafna hana við jörðu og reisa nýja frá grunni.
Ef af framkvæmdunum verður fjölgar sætum Selhurst Park úr ríflega 25.000 í yfir 34.000. Auk þess á að stórbæta alla aðstöðu til móttöku hópa, sem hefur reynst nágrönnum Palace í Tottenham og Arsenal afar vel, en fá lið sækja meiri tekjur á leikdegi, akkúrat vegna slíkrar aðstöðu.
Leeds United

Verja á 150 milljónum punda í að stækka og nútímavæða hinn stórglæsilega Elland Road völl í Leeds.
Sætafjöldinn mun aukast úr um tæpum 38.000 sætum í heil 53.000, en langur biðlisti er eftir ársmiðum og stökum miðum á leiki liðsins.
Til stendur að stórauka tekjur af sölu lúxusmiða á leiki sem og af hýsingu hinna ýmsu viðburða. Árið um kring á Elland Road að vera vettvangur stórra tónleika og annarra íþróttaviðburða.
Náist að stórauka tekjur á leikdegi eru væntingar um að Leeds geti enn á ný fest sig í sessi sem efstudeildarfélag.
Oxford United

Í ágúst fékkst samþykki borgarráðs Oxford fyrir byggingu nýs vallar, en enn er beðið með skóflurnar þar sem fleiri opinberir þumlar þurfa að vísa upp áður en hefja má framkvæmdir.
Það liggur þó nokkuð á þar sem eigandi núverandi heimavallar, Kassam Stadium, mun aðeins leigja félaginu völlinn næstu þrjú tímabilin, sem áttu að vera tvö ef samþykki borgarráðs hefði ekki fengist.
Nýr völlur verður einkar glæsilegur, 16.000 áhorfendur munu geta sótt leiki í stað 12.500 í dag, en fjórðungi sæta verður þó hægt að breyta í stæði, sem enn frekar gæti fjölgað áhorfendum.
Nottingham Forest

Það hefur tekið sinn tíma en nú sex árum eftir að farið var af stað hefur loks verið samþykkt að ráðist verði í meiriháttar endurbætur á City Ground í Nottingham. Rífa á Peter Taylor stúkuna og reisa nýja og stærri.
Eftir breytingarnar mun völlurinn taka 35.000 manns í sæti, en hinn umdeildi eigandi liðsins Evangelos Marinakas vill ganga enn lengra og fjölga sætum í 50.000. Það verður þó að bíða betri tíma og ætti niðurrif að hefjast innan árs.
Áhugavert er að meðal skilyrða fyrir leyfisveitingu opinberra aðila er að félagið þarf að leggja fé til opinberra inviða í nágrenni vallarins og fjármagna nýja aðstöðu fyrir nágranna sína Nottingham Rowing Club.
Wrexham

Velska Hollywoodliðið er í tísku og þá þarf auðvitað að stækka Racecourse Ground.
Í stað tímabundinnar stúku sem reist var eftir niðurrif Kop stúkunnar svokölluðu fyrir tveimur árum verður afar glæsileg ný stúkubygging reist.
Til stóð 5.000 áhorfendur kæmust fyrir í nýju stúkunni en nú nýlega var ákveðið að bæta hæð við hana og þar með 2.250 auka sætum. Þar með geta Ryan Reynolds og félagar tekið við um 18.000 gestum á leikdegi, en vonir standa til um að enn frekar verði hægt að fjármagna stækkun leikvangsins.
Háværustu stuðningsmenn liðsins eiga að þjappa sér saman í nýju stúkunni og verður þak hennar hannað með það í huga að lætin magnist upp og berist inn á völlinn.

Dundee

Ætlar þetta engan enda að taka? Í Dundee hefur verið stefnt að flutningi í áratugi. Loksins þegar nýr og nær fullkominn völlur er á teikniborðinu virðist allt botnfrosið vegna þess að yfirvöld hafa áhyggjur af því að samgönguinnviðir ráði ekki við umferð á leikdegi.
Nú í ágúst sendi framkvæmdastjóri Dundee frá sér yfirlýsingu þess efnis að skipulagsyfirvöld í borginni virtust ekki hreinlega leggja stein í götu félagsins og biðlaði til þingmanna og borgarfulltrúa að liðka fyrir og leyfa liðinu loksins að flytja.
Það er gaman að hafa komið á Dens Park (og séð Dundee steinliggja 7-1 fyrir Aberdeen) og völlurinn er afar sjarmerandi, en það er kominn tími til að flytja.
Sheffield United

Kannski er ótímabært að reikna með stækkun Bramall lane. Til stóð verja 100 milljónum punda í að bæta völlinn og stækka upp í 40.000 sæti, en lítið er að frétta af þeim áætlunum í dag.
Nýir bandarískir eigendur hafa lagt áherslu á minniháttar framkvæmdair, svo sem með kaupum á auglýsingaskiltum og fyrirætlunum um stæði í stað sæta í Kop stúku vallarins, sem verið hefur til vandræða vegna láta í stuðningsmönnum. Þó voru nýlega fest kaup á lóð við völlinn, sem gæti nýst við stækkun hans síðar meir.
Meira er rætt um þrönga fjárhagslega stöðu félagsins þessa dagana en skóflustungur, en teikningarnar líta þó vel út.
Forest Green Rovers

Ekkert kjöt. Ef þú ætlar að fá þér pylsu eða rjúkandi heita kjötböku á köldum neðrideildarleik þarftu að sækja hana annað.
Dale Vince, eigandi Forest Green Rovers mun ekki bara banna sölu kjötvara á Veganvangi heldur munu leikmenn hans heldur ekki mega borða dýraafurðir á æfingasvæði eða leikvangi félagsins.
Eco Park er langt genginn í gegnum samþykktarferli og ættu framkvæmdir að geta hafist innan skamms.
Engu verður til sparað. Arkitektastofa Zaha Hadid hannaði völlinn, sem verður sá umhverfisvænasti í knattspyrnubransanum.
Aston Villa

Fáir vellir eru glæsilegri en Villa Park, en það má samt stækka hann, ef vandað er til verka.
Það virðist ætla að takast, en það liggur á þar sem til stendur að leikið verði á vellinum á Evrópumótinu 2028.
Byggja á nýja stúku sem fjölgar sætum í yfir 50.000 en sömuleiðis verða umfangsmiklar breytingar gerðar á svæðinu í kringum völlinn, aðkomu gesta og aðstöðu fyrir verslanir og veitingasölu.
Haldið verður í fallega hönnun vallarins, sem er eitt af meistaraverkum Skotans Archibald Leitch, sem hannaði marga af sögufrægustu leikvöngum Bretlandseyja.
Bournemouth

Nú á að tvöfalda sætafjölda minnsta leikvangs ensku úrvalsdeildarinnar. Eftir stækkunina verður hann næstminnstur.
Dean Court fær nýja og nútímalega aðalstúku og endurbætur verða gerðar á öðrum stúkum vallarins. Þá verður umhverfi vallarins breytt til muna, en fyrr á þessu ári keypti félagið leikvanginn og stýrir því alfarið uppbyggingu á svæðinu.
Ekki liggur fyrir hvort ráðist verði í frekari framkvæmdir á vellinum en að stækkuninni lokinni geta 20.200 áhorfendur sótt þar leiki, gætt sér á fjölbreyttari veitingum og keypt enn meiri varning.
Ebbsfleet

Í ensku utandeildinni, nánar tiltekið National League South, stendur mikið til. Ebbsfleet er að líkindum að flytja frá Stonebridge Road vellinum, þar sem leikið hefur verið í 120 ár.
Gamli völlurinn verður rifinn og nýr byggður á því sem næst sama bletti. Vellinum verður þó snúið um 90 gráður og helst framkvæmdin í hendur við miklar framkvæmdir á hafnarsvæðinu, sem liggur við ána Thames.
3.000 fleiri gestir munu geta sótt leiki liðsins en á Stonebridge Road, en til gamans má geta að á síðasta tímabili sóttu aðeins 1.400 manns leiki liðsins að meðaltali og litlu fleiri það sem af er þessu tímabili.
Ekki hafa öll framkvæmdaleyfi skilað sér í hús en væntingar eru um að ekki líði á löngu áður en vinnuvélarnar verða ræstar.
Glentoran

„Nei, ég keyri ekki þangað“ sagði leigubílstjórinn í Belfast við mig þegar ég bað um far á The Oval, heimavöll Glentoran. Það var því ekkert annað í stöðunni en að ganga og á röltinu rann upp fyrir mér hvernig stóð á viðbrögðum hans.
Breskir fánar og myndir af drottningunni í hverjum glugga. Þetta var mótmælendahverfi og mótmælendaklúbbur.
The Oval er einn af þessum einstöku, sjarmerandi gömlu völlum sem var nauðsynlegt að sjá áður en nútíminn gerði það ómögulegt. Nú er víst komið að því og verða nýjar stúkur reistar í stað þeirra gömlu, við hvora langhlið vallarins.
Samþykki yfirvalda eru að mestu komin í hús en óljóst er hvenær framkvæmdir hefjast.







































