top of page

110 milljarðar í búninga fyrir gæludýr

  • Writer: Björn Berg Gunnarsson
    Björn Berg Gunnarsson
  • Nov 5
  • 1 min read
Þrír hundar í grímubúningum

Samtök verslunarinnar í Bandaríkjunum (NRF) áætla að heildarútgjöld þar í landi vegna nýliðinnar Hrekkjavöku hafi numið tæpum 1.700 milljörðum íslenskra króna. Er það 13% aukning frá því í fyrra og litlu meira en metárið 2023. Aldrei hefur jafn háum fjárhæðum verið varið til hátíðarinnar þar í landi, þótt leiðrétt sé fyrir verðbólgu, eins og sjá má á ritinu hér að neðan.


Stöplarit sem sýnir árleg útgjöld bandaríkjamanna til Hrekkjavökunnar frá 2014 til 2025
Heimild: NRF

Í hvað fara allir þessir peningar?


Mestu ver Kaninn í grímubúninga, eða ríflega 500 milljörðum króna. Skreytt er fyrir svipaða fjárhæð og þá er sælgæti verslað fyrir tæpa 500 milljarða. Raunar má rekja má um 6,5% árlegra nammikaupa vestanhafs til neyslu þennan eina dag og er mestu varið til kaupa á M&M, Reese's hnetusmjörsnammi, Sour patch kids hlaup og Skittles. Mitt heimili getur því ekki verið það eina sem tekur góða viku í að vinna á afrakstri Hrekkjavökugöngunnar.


Graf sem sýnir helstu útgjaldaliði tengda hrekkjavökunni
Heimildir: NRF, Capital One

Gæludýrin taka þátt

ree

Ekki dugar að dressa fjölskylduna upp í tilefni dagsins og gleyma dýrunum. Af þeim 546 milljörðum króna sem varið er til búningakaupa er fimmtungur ætlaður gæludýrum. Þeim búningum sem hafa best er ætlað að breyta dýrunum í grasker, pylsur, hunangsflugur, drauga, ofurhetjur og leðurblökur. 7. vinsælasti gæludýrabúningurinn er hundabúningur, sem hlýtur að teljast ófrumlegur búningur, nema hann sé ætlaður öðrum dýrum en einmitt hundum.


Þeir 110 milljarðar króna sem varið var til gæludýrabúningakaupa vegna Hrekkjavökunnar jafngilda ríflega því sem kosta myndi að kaupa Ölgerðina, Sjóvá, Nova og Sýn svo fjárhæðin sé sett í eitthvað samhengi.



bottom of page