10 ma. dollara liðið LA Lakers - Tölurnar sem skipta máli
- Björn Berg Gunnarsson
- Jun 23
- 3 min read

Stóra fréttin í íþróttaheiminum þessa dagana er að Jeanie Buss og fjölskylda hyggist selja körfuboltaliðið Los Angeles Lakers á 10 milljarða dollara, eða um 1.240 milljarða íslenskra króna. Það er þó ekki alls kostar rétt.
Hvað er verið að selja og af hverju er talað um 10 milljarða?
Buss fjölskyldan á í dag 2/3 í félaginu og hyggst selja um 3/4 þess eignarhlutar, en halda eftir 15% af félaginu, að minnsta kosti um sinn. Auk þeirra á Todd Boehly, einn eigenda Chelsea 7%, Patrick Soon-Shiong 4%, Ed Roski 3% og loks Mark Walter 20%, en það er hann sem fer fyrir kaupunum á hlut Buss fjöskyldunnar.
Ef við reiknum með að Walter og félagar kaupi allan eignarhlutinn sem um er rætt eru það 66%-15%= 51% af félaginu. Bætist það við 20% eignarhlut Walters sem mun eftir kaupin eiga 71% af félaginu. Það er þó kannski full mikið að segja hann eiga 71% þar sem hann mun þurfa að sækja umtalsvert fé, væntanlega frá öðrum fjárfestum beint eða í gegnum eignarhaldsfélagið hans TWG Global. Walter á auk þess hafnaboltaliðið LA Dodgers sem og minni eignarhluti í Chelsea og öðrum bandarískum íþróttaliðum.
Talað er um að 51% hlutur í Lakers sé verðmetinn á 5,1 milljarð dollara, sem endurspeglar að heildarverðmat félagsins séu 10 milljarðar. Þaðan kemur 10 milljarða talan, en það er þó ekki verið að selja liðið á 10 milljarða.
Næstverðmætasta íþróttalið heims?
10 milljarðar dollara er hreint makalaus fjárhæð, ekki síst þegar litið er til þess að félagið á ekki einu sinni sinn eigin leikvang, heldur leigir hann. Nýlega var annað NBA lið, Boston Celtics, selt á 6,1 milljarð dollara, sem þó þótti afar mikið. Því hafa fréttirnar af verðmæti erkifjendanna í Lakers hafa vakið svo mikla athygli. Ef við færum það inn á nýjasta lista Forbes yfir verðmætustu íþróttafélög heims sést að litlu munar að liðið skáki Dallas Cowboys á toppnum.
Lið | Ma.kr. | Íþrótt | |
---|---|---|---|
1 | Dallas Cowboys | 1.252 | Bandarískur fótbolti |
2 | Los Angeles Lakers * | 1.240 | Körfubolti |
3 | Golden State Warriors | 1.091 | Körfubolti |
4 | Los Angeles Rams | 942 | Bandarískur fótbolti |
5 | New York Yankees | 936 | Hafnabolti |
6 | New York Knicks | 930 | Körfubolti |
7 | New England Patriots | 918 | Bandarískur fótbolti |
8 | New York Giants | 905 | Bandarískur fótbolti |
9 | New York Jets | 856 | Bandarískur fótbolti |
10 | San Francisco 49ers | 843 | Bandarískur fótbolti |
11 | Las Vegas Raiders | 831 | Bandarískur fótbolti |
12-13 | Philadelphia Eagles | 818 | Bandarískur fótbolti |
12-13 | Real Madrid | 818 | Fótbolti |
14 | Manchester United | 812 | Fótbolti |
15 | Chicago Bears | 794 | Bandarískur fótbolti |
16 | Washington Commanders | 781 | Bandarískur fótbolti |
17 | Miami Dolphins | 769 | Bandarískur fótbolti |
18 | Houston Texans | 756 | Bandarískur fótbolti |
19 | Boston Celtics | 744 | Körfubolti |
20 | Barcelona | 694 | Fótbolti |
Hvað er þetta há fjárhæð?
Til gamans getum við borið 10 milljarðana, eða 1.240 milljarða króna, saman við nokkur skráð félög í Kauphöll Íslands. Þegar þetta er skrifað jafngildir það akkúrat samanlögðu markaðsvirði skráðu félaganna 12 sem sjá má á myndinni hér að neðan.

Hvers vegna skiptir þetta máli?
Verðmiði Lakers endurspeglar þá trú fjárfesta að hægt sé að sækja afar miklar tekjur úr félaginu, jafnvel mun meiri en verið hefur. Til að svo verði þarf eitthvað að breytast og þar sem um áhrifamikið félag er að ræða gætu slíkar breytingar haft áhrif á NBA deildina alla.
Þá eiga viðskipti með eignarhluti í NBA liðum til að hafa meiriháttar áhrif á önnur slík viðskipti. Því má áætla að hærra verð en ella verði greitt fyrir næsta lið sem selt verður.
Stóra spurningin er þó hvaða áhrif viðskiptin koma til með að hafa á fjölgun liða í deildinni. Lengi hefur verið rætt um að Las Vegas fái sitt eigið lið auk þess sem Seattle Supersonics snúi aftur. Þar sem um lokaða deild er að ræða, með að miklu leyti jafna tekjudreifingu, þurfa ný félög að kaupa sig inn í hana.
Getur verið að aðgöngumiði í NBA deildina kosti nú 10 milljarðar dollara?