top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Skiptir eignarhaldið engu máli?

Það skyldi engan undra að kaup yfirvalda í Sádí Arabíu á enska knattspyrnufélaginu Newcastle hafi þurft að ræða í þaula, jafnt á krám sem og í stjórnarherbergjum.

Tíðindin fóru eðlilega mis vel ofan í áhugafólk og hagsmunaaðila og hristu það duglega upp í boltanum að sjálfur formaður ensku úrvalsdeildarinnar Gary Hoffman hefur tilkynnt að hann hyggist stíga frá borði vegna málsins.


En hvaða áhrif koma kaupin til með að hafa og hvaða skoðun eigum við að hafa á því þegar heilu þjóðríkin hefja að kaupa upp gömul og rótgróin knattspyrnulið? Hætt er við því að í umræðunni mætist annars vegar stuðningsmenn félagsins, verjandi nýja eigendur þess með kjafti og klóm eins og borið hefur á í tengslum við fleiri sambærilegar fjárfestingar og hins vegar gagnrýnendur kaupanna, með málflutningi sem mismikil stemning er fyrir meðal áhugafólks.


Mér þykir umræðan um kaup Newcastle krefjast þess að vera, eins og annað mál tengt eignarhaldinu, bútað niður. Fyrst veltum við fyrir okkur áhrifum kaupanna á velgengni félagsins, þá víðari áhrifum kaupanna á úrvalsdeildina og Evrópuboltann og loks hvort við ættum yfir höfuð að hafa skoðun á eignarhaldi knattspyrnufélaga.


Nýja Newcastle

Þegar Alan Shearer snéri aftur heim til Newcastleborgar sumarið 1996 var um að ræða dýrustu félagsskipti knattspyrnusögunnar. Ef frá er talið heimsmetið sem sett var í borginni árið 2000 þegar hátt í 40.000 hlauparar skeiðuðu þar hálfmaraþon efast ég um að mörg íþróttametin hafi þar verið slegin frá þeim tíma. En nú er öldin önnur. Með nokkurri einföldun má segja að hinir nýju eigendur félagsins séu þeir ríkustu í knattspyrnuheiminum og félagið því sömuleiðis. Við þá túlkun má þó setja fyrirvara. Ekki liggur enn fyrir hve háum fjárhæðum verður hellt inn í félagið, en ef marka má orð Amöndu Staveley, sem leiddi kaupin fyrir hönd Sáda, munu þær nema hundruðum milljóna ef ekki milljörðum punda.

Kaup Sáda fengu að ganga í gegn í annarri tilraun þar sem því var lofað að yfirvöld þar í landi hefðu ekkert með stjórn félagsins að gera.


Það er því morgunljóst að Newcastle verður keyptur aðgangur í hóp elítuliða ensku úrvalsdeildarinnar og þar með Evrópuboltans. Fyrri eigandi, Mike Ashley, hafði skilið eftir gífurlegt svigrúm til útgjalda án þess að farið sé á svig við reglur þar um. Verður liðið því stórtækt á leikmannamarkaðinum á næstunni auk þess sem fjárfest verður í innviðum og aðstöðu félagsins og stórir auglýsingasamningar gerðir sem enn frekar munu auka getu Sáda til að veita fé inn í félagið. Þetta mun óumflýjanlega skila árangri inni á vellinum, nema Newcastle taki upp á því að haga sér eins og, ja Newcastle, og spila undir getu.


Samkeppnin

Fjárhagslegir burðir Newcastle munu enn frekar herða samkeppnina um sæti í Meistaradeild Evrópu, einni helstu gullkistu íþróttarinnar og jafnvel sjálfan Englandsmeistaratitilinn. Enn fleiri leikmenn í heimsklassa gætu leikið í úrvalsdeildinni, stórleikjum fjölgar væntanlega og á nægu verður að kjamsa fyrir áhugafólk og fjölmiðla næstu félagsskiptagluggana þegar Sádar eltast við helstu stjörnurnar með útbólgið veskið á lofti.

Þar sem kaup Sáda ógna tekjum og tækifærum hinna stórliðanna á Englandi og í Evrópuboltanum reikna ég með að nú aukist líkurnar á að önnur tilraun verði gerð við stofnun evrópskrar ofurdeildar, sem tryggja mun tilteknum hópi liða nokkuð fastar tekjur og ríkidæmi.

Skiptir máli hver á fótboltalið?

Gríðarlegir fjármunir, sem ef til vill hefðu leitað annað, renna inn í enska knattspyrnu og Newcastle borg fyrst og fremst. Eigendur Manchester City, Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hafa lagt ríka áherslu á að fjárfesta í nærumhverfi leikvangsins og svipað verður líklega uppi á teningnum á Tyneside. Slíkir tilburðir, sem ætlað er að vinna hug og hjörtu heimamanna, geta vissulega haft jákvæð áhrif og skiljanlegt er að innspýtingu fjár í samfélagsleg verkefni og aðstöðu ungmenna auk aukinnar velgengni félagsins sem borgarbúum þykir svo vænt um verði vel tekið.


En er öll fjárfesting jöfn í knattspyrnuheiminum? Kaup Sáda fengu að ganga í gegn í annarri tilraun þar sem því var lofað að yfirvöld þar í landi hefðu ekkert með stjórn félagsins að gera. Samt sem áður er leiðtogi landsins stjórnarformaður fjárfestingarsjóðsins sem fer með 80% eignarhlut í félaginu. Í þessu tilviki, rétt eins og í málefnum annarra sambærilegra, er regluverkið nokkuð á skjön við raunveruleikann. Auðvitað eru Sádar að kaupa Newcastle og munu stýra því, rétt eins og aðrir eigendur, hvort sem þeir eru frá olíuríkjum eða ekki.

Ásakanir um gróf mannréttindabrot nýrra eigenda Newcastle hafa vissulega vakið talsverða athygli en auk þess mætti ræða með almennari hætti um eignarhald knattspyrnuliða. Eru engin takmörk fyrir því hvernig því skal háttað? Hvað ef Sádar kaupa fleiri félög? Hvað ef fleiri þjóðríki festa kaup á félagsliðum til að fegra orðspor sitt og láta á sér bera? Verður á einhverjum tímapunkti gripið í bremsuna? Verða tilraunir gerðar þegar helmingur félaganna í ensku úrvalsdeildinni eða riðlakeppni Meistaradeildarinnar verða í eigu einræðisríkja?

Ástæða er til þess að knattspyrnuhreyfingin í heild sinni ræði þetta af fullri alvöru vegna þess að við stefnum hraðbyr í þessa átt. Ef áhugi er á því að grípa inn í má ekki bíða eftir að atkvæðavægi þessara sömu eigenda verði orðið það mikið að takmarkanir verða ekki lengur mögulegar.


Að því sögðu verður óneitanlega spennandi að fylgjast með Newcastle næstu árin.


Greinin birtist fyrst í Innherja

Comments


bottom of page