top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Skerðir séreign ellilífeyri?

Íslenska lífeyriskerfið er flókið. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að töku lífeyris og ekki einfaldast málin þegar okkur berast til eyrna misvísandi upplýsingar.


Hvernig var þetta aftur? Nefndi ekki einhver á kaffistofunni að ég þyrfti að vera búinn að taka þetta allt saman út áður en ég hætti að vinna? Eða var það bara séreignin? Á Facebook sagði einhver, að því að virðist mjög viss í sinni sök, að allt væri hirt af ríkinu og ekkert mætti eiga. Á ekki núna að taka af fólki persónuafsláttinn og refsa þeim sem vilja vinna?

Eðlilega verðum við ringluð þegar á okkur dynja fullyrðingar og reynslusögur. En of miklir fjármunir eru í húfi til að við getum leyft okkur að byggja mikilvægar ákvarðanir á slíkum heimildum. Við höfum hreinilega ekki efni á að hlýða því sem okkur er sagt á Facebook eða trúa því sem sagt er á kaffistofunni. Við brosum bara kurteislega en hlustum ekki og leitum þess í stað svara á vefsíðum viðkomandi lífeyrissjóða eða stofnana, svo sem Tryggingastofnunar.


Áhrif séreignar


Áberandi er misskilningur varðandi áhrif séreignarsparnaðar á ellilífeyri. Hið rétt er að enginn séreignarsparnaður skerðir neinn ellilífeyri frá lífeyrissjóðum. Séreign getur þó skert ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga, sem greiddar eru af Tryggingastofnun. Mikilvægt er þó að vita um hvers kyns séreign er rætt. Þannig skerðir úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar ekki greiðslur ellilífeyris TR, en úttekt annarrar séreignar getur þó skert greiðslur. Þar getur til dæmis verið um að ræða tilgreinda séreign, bundna séreign eða frjálsa séreign úr skyldusparnaði (m.ö.o. þá séreign sem safnað hefur verið með greiðslu skylduiðgjalds í lífeyrissjóð). Séreignin skerðir þó ekki, hafi greiðslur frá TR þegar verið hafnar fyrir lagabreytinguna sem tók gildi í ársbyrjun 2023.


Hér skal þó skýrt tekið fram að miðað er þær reglur sem voru í gildi þegar þetta er skrifað, en reglulega eru gerðar breytingar á almannatryggingum.


Kemur mín séreign til með að skerða ellilífeyrisgreiðslur frá TR?


Hér getur þú flett upp þinni séreign og séð hvort úttekt hennar mun skerða ellilífeyrisgreiðslur TR


Viðbótarlífeyrissparnaður

Nei

Bundin séreign

Tilgreind séreign

Séreignarhluti lágmarksiðgjalds

Frjáls séreign úr skyldusparnaði


Þar sem vextir á bankabók teljast til fjármagnstekna og fjármagnstekjur geta skert greiðslur almannatrygginga hefur gætt misskilnings varðandi ávöxtun séreignar. Ávöxtun hennar hefur engin áhrif á greiðslur almannatrygginga á meðan hún er geymd í séreignarsparnaðarkerfinu, hvernig séreign sem hún kann að vera.


Ef þú hefur aldrei hreyft við þínum séreignarsparnaði er svarið við titli greinarinnar tiltölulega einfalt: Að óbreyttu er viðbótarlífeyrissparnaður eini lífeyrissparnaður þinn sem mun ekki skerða greiðslur TR við úttekt.


Sjáir þú fram á að fá greiðslur frá TR en átt aðra séreign en viðbótarlífeyrissparnað, er kjörið að kanna hvort það gæti hentað að sækja hana áður en sótt er um greiðslur almannatrygginga.


Greinin var uppfærð 3. apríl 2024.


 

 Skráðu þig á póstlista


Á lífeyrisvef Björns getur þú skráð þig á póstlista vegna lífeyrismála. Í fréttabréfinu koma fram upplýsingar um breytingar á lífeyriskerfinu og tíðindi þess efnis, dagsetningar næstu námskeiða og fleira.




Kommentarer


bottom of page