Það þykir víst fínt að segja „ég hef ekki áhyggjur af peningum, ég hef áhyggjur af engum peningum“, en þó veldur ávöxtun fjármuna mörgum hugarangri, ekki síst á lífeyrisaldri. Verðbólgan er á sífelldu iði, vöxtum er hent fram og til baka og þá geta sparnaðarkostirnir bæði verið fjölbreyttir og torskildir. Það er ekki auðvelt að ávaxta sparifé sitt við þær aðstæður, en við þurfum þó að bjarga okkur.
Áherslan á vextina
Þegar leitað er að stuttu svari við spurningunni um hvar bestu vextina sé að finna er yfirleitt bent á óverðtryggða hávaxtareikninga bankanna. Þeir geta að sjálfsögðu reynst vel og vextir þeirra eru merkilega háir þessa dagana en það nægir ekki að líta eingöngu til vaxtanna. Mér er minnistæður félagsskapur lífeyrisþega sem fyrir rúmum áratug færði sig ört milli banka og lífeyrissjóða í leit að hæstu vöxtunum. Ekkert virtist skipta máli annað en möguleikinn á að hækka ávöxtunina um brot úr prósentu. Þrátt fyrir að enn kraumaði í brunarústum fjármálahrunsins var ekkert tillit tekið til þess hvort viðkomandi fjármálastofnun væri örugg eða hvort áhætta væri fólgin í bindingu, verðbólgu eða öðru sem mikilvægt er að hafa í huga þegar peningum er komið fyrir. Vextirnir voru upphaf og endir alls.
Þetta þykir mér enn óþægilega algengt og leitin að ávöxtun er að mestu bundinn við samanburð vaxta. Stutta svarið er vissulega að benda eingöngu á vextina en spariféð okkar er dýrmætara en svo að við ættum að sætta okkur við slík svör. Því er mikilvægt að við tökum meira inn í reikninginn, ef svo má að orði komast.
Eins undarlega og það hljómar eru háar vaxtaprósentur í dag því ekki endilega svo miklu betri en þegar vextirnir voru lágir.
Hvaða ávöxtun fáum við í raun og veru?
Við ættum að vera farin að þekkja það hér á landi að lítið er varið í ávöxtun sem heldur ekki í við verðbólgu. Stundum mætti þó minna á þá staðreynd. Meðan á covid faraldrinum stóð var mikið rætt um að ekkert væri upp úr bankabókum að hafa og fagna margir því að vextir séu nú komnir langleiðina í tveggja stafa tölu. Þó gleymist að verðbólgan var mun minni í covid og vegna lægra vaxtastigs voru skattar og skerðingar Tryggingastofnunar vegna fjármagnstekna mun minni. Vaxtaprósentan er ekki það sem máli skiptir, heldur það sem eftir verður þegar verðbólgan, skatturinn og TR hafa tekið sitt.
Eins undarlega og það hljómar eru háar vaxtaprósentur í dag því ekki endilega svo miklu betri en þegar vextirnir voru lágir. Með nokkurri einföldum getum við litið á dæmi um hjón, sem bæði fá greiðslur frá Tryggingastofnun og ávaxta 10 milljónir króna á bankabók. Fái þau 8% vexti í 7% verðbólgu verður ávöxtun þeirra á einu ári neikvæð um rúm 170 þúsund krónur að frádreginni verðbólgu, fjármagnstekjuskatti og skerðingum TR. Hafi vextirnir hins vegar verið 3% í 2% verðbólgu verður raunveruleg ávöxtun jákvæð um ríflega 14 þúsund krónur. Þess má geta að frítekjumark fjármagnstekna vegur þungt í þessum útreikningum.
Fæ ég peningana til baka?
Ávöxtun fjármuna krefst þess að við afhendum þá öðrum og því megum við ekki gleyma. Við mat á fýsileika sparnaðarleiðar er því mikilvægt að við metum líkurnar á að ekki takist að sækja sparnaðinn þegar við þurfum á honum að halda eða að hann skili sér ef til vill ekki allur. Eftir því sem við metum áhættu á slíku meiri, því hærri ávöxtunar krefjumst við. Með öðrum orðum sættum við okkur almennt við minni ávöxtun í öruggum sparnaði en þar sem meiri óvissa ríkir. Vextirnir eru ekki allt.
Hvað er góð ávöxtun?
Við val á ávöxtunarleið í séreignarsparnaði er stundum boðið upp á svokallaðar ævileiðir. Eignasamsetning þeirra breytist eftir því sem sjóðfélagi eldist og er dregið úr áhættu í safninu, yfrleitt með auknu hlutfalli verðtryggingar, ríkisskuldabréfa og innlána. Þetta er nálgun sem reynst getur vel. Þegar við erum ung og getum ávaxtað fé í áratugi höfum við svigrúm fyrir miklar verðsveiflur og þónokkra áhættu. Þá getum við leyft okkur að velja ávöxtunarleiðir sem skila meiru til lengri tíma, vegna þess að við þolum niðursveiflur og höfum tíma til að vinna upp tap.
Þegar við förum að hugsa um að ganga á sparnaðinn okkar er ekki óeðlilegt að nálgunin breytist. Þá höfum við lítinn húmor fyrir miklum verðsveiflum og neikvæðri ávöxtun en leggjum þess í stað áherslu á að verja það sem þegar hefur verið safnað. Við metum því mun meira verðmæti í öryggi en áður og viljum umfram allt tryggja að það sparifé sem við höfum lagt hart af okkur við að safna verði á sínum stað þegar við þurfum á því að halda.
Ég reikna ekki með að ávöxtun fjármuna verði auðveldari á næstunni og því borgar sig að vanda sig. Verum upplýst um þá kosti sem í boði eru, utanaðkomandi áhrifaþætti og umfram allt að öryggi er verðmætt.
Greinin birtist fyrst í fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna
Bókaðu tíma í ráðgjöf
Boðið er upp á faglega fjármálaráðgjöf á skrifstofu Björns í Hafnarhvoli, Tryggvagötu 11 í Reykjavík sem og á fjarfundi.
Skráðu þig á póstlista
Á lífeyrisvef Björns getur þú skráð þig á póstlista vegna lífeyrismála. Í fréttabréfinu koma fram upplýsingar um breytingar á lífeyriskerfinu og tíðindi þess efnis, dagsetningar næstu námskeiða og fleira.
Commentaires