Er arfurinn ódýrari þegar fólk er gift?
- Björn Berg Gunnarsson
- Aug 17
- 2 min read

Erfðafjárskattur er í dag tvöfalt hærri en hann var fyrir hrun og nemur 10%. Undantekningar geta þó verið á skattskyldunni sem vert er að hafa í huga, ekki síst þegar litið er á arf maka.
Fyrirframgreiddur arfur
Eins og fram kemur í eldri grein um fyrirframgreiddan arf eru engin frítekjumörk á slíkri ráðstöfun og mikilvægt að fara rétt að, t.d. þegar aðstoða á börn við kaup á húsnæði. Þá er útbúin erfðafjárskýrsla og 10% skattur greiddur af allri fjárhæðinni. Uppgjör á dánarbúi er þó nokkuð frábrugðið fyrirframgreiddum arfi.

Skattfrelsi
Þegar dánarbú er gert upp má draga ákveðna fjárhæð frá því sem skipt er og hefur sú fjárhæð verið hækkuð í takti við verðbólgu undanfarin ár. Árið 2025 nemur skattfrelsið 6.498.129 kr. og nýtir hver erfingi það í hlutfalli við arf sinn. Þá greiða börn ekki erfðafjárskatt af séreignarsparnaði (en greiða þó tekjuskatt og útsvar við úttekt hans).
Eftirlifandi maki
Hjón greiða ekki erfðafjárskatt, en til þess að sambúðarmaki sé undanþeginn skattskyldu þarf að hafa verið stofnað til óvígðrar sambúðar og sérstaklega tekið fram í erfðaskrá að makinn taki arf. Í erfðaskránni þarf sambúðarmaka auk þess að vera sérstaklega getið sem slíks.
Ef ekki hefur verið gengið frá erfðaskrá á sambúðarmaki almennt engan erfðarétt. Ef hann tekur hins vegar arf skv. erfðaskrá, en þess er ekki getið að um sambúðarmaka sé að ræða, greiðir hann erfðafjárskatt af sínum hlut. Því er mikilvægt að haga öllu slíku með réttum hætti, ef tryggja á að ekki verði greiddur óþarfa skattur.
Óskipt bú
Arfi er þó ekki alltaf skipt og algengt er hér á landi að setið sé í óskiptu búi. Ákveðnar takmarkanir eru þó á leyfi til setu í óskiptu búi, en taka má af allan vafa með útfyllingu tilkynningar þess efnis eða með því að taka slíkt fram í erfðaskrá. Gott er að kynna sér reglur um setu í óskiptu búi á vefnum.
