top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Heimilisfjármálin á stormasömu ári


Grein um heimilisfjármál í VR blaðinu



Gluggaveður er skemmtilega íslenskt orð. Í brunagaddi og bálhvössu eru krókusarnir farnir að dauðsjá eftir þjófstartinu en við sitjum við eldhúsgluggann og njótum útsýnisins. Mikið er þetta nú fallegur dagur. Það er kostur að geta litið á íslenska veðrið með þessum hætti og án þess væri hér tæplega búandi.

Það er mikilvægt að muna að núverandi ástand, hvernig svo sem árar, er ekki víst að verði varanlegt.

Við höfum þó vit á að vaða ekki út í gluggaveðrið nema kappklædd. Við fylgjumst með veðurspánni og tökum grillið inn ef spáin er ljót. Það er vissara að ganga einn hring og sjá til þess að gluggarnir séu lokaðir og þótt stutt sé síðan við hreinsuðum frá niðurföllunum tekur enga stund að líta á þau aftur. Vissulega erum við heppin að búa hér við einhver bestu lífsgæði á byggðu bóli en þetta er samt óttalegt rokrassgat. Þótt ég hafi ekkert fyrir mér í því ætla ég að leyfa mér að fullyrða að engin þjóð nýtir góðviðrisdaga betur, vegna þess að við vitum sem er að næsta lægð nuddar saman lófunum einhvers staðar suður í höfum og býður þess að minna okkur á hvar við búum.


Slæmi kaflinn kemur


Við vitum öll af þessum sviptingum. Við kunnum að stilla væntingum í hóf og vitum að eins og í handboltanum kemur slæmi kaflinn alltaf en er þó ekki eilífur. Við búum ekki við ósvipuð skilyrði í efnhagslegu tilliti. Þetta er óttalegt rokrassgat. Búandi á slíku landi verðum við því að verja okkur eins og kostur er fyrir þeim sviptingum sem sennilega eru og verða óumflýjanlegar. Það er mikilvægt að muna að núverandi ástand, hvernig svo sem árar, er ekki víst að verði varanlegt. Hér skiptast oftar á skin og skúrir og með meiri látum en víða annars staðar. Hin ýmsu gögn sýna okkur, svo ekki verður um villst, að okkur hættir til að gleyma okkur í núverandi ástandi. Þetta er ekki séríslenskt vandamál hvað heimilisfjármálin varðar, en kannski öllu alvarlegra vegna þess hve sveiflurnar hér eru miklar.


Gerum ráð fyrir hinu óvænta


Okkur hættir til að taka ákvarðanir sem byggja á þeirri forsendu að nýliðinn tími endurtaki sig eða núverandi ástand verði varanlegt. Þessi tilhneiging hefur birst okkur annað slagið undanfarin ár. Sem dæmi má nefna mikinn flótta úr íslensku krónunni eftir að hún hafði þegar veikst mikið í kjölfar fjármálahrunsins. Almenningur tók lítinn þátt í fjárfestingum á hlutabréfamarkaði fyrr en eftir að mjög miklar verðhækkanir höfðu þegar átt sér stað í aðdraganda hrunsins og meðan á Covid stóð. Þegar litið hefur verið á tíðni viðskipta einstaklinga í verðbréfasjóðum er ljóst að almenningur vill leggja fé sitt þangað inn eftir miklar hækkanir en tekur fjármuni út eftir miklar lækkanir og sama má segja um margar aðrar fjárfestingar. Við virðumst elta sveifluna þar sem við ofmetum líkur á því að hún haldi áfram á sömu leið.


Ef bornir eru saman vextir á bankabókum og verðbólguspár virðast innlánskjör nú vera óvenju góð, en þó er enn vinsælt að tala um að ekkert sé upp úr bankareikningum að hafa þessa dagana. Aðstoðarseðlabankastjóri var harðlega gagnrýnd þegar hún benti á, um það leyti sem vextir náðu hér lágmarki, að mikilvægt væri að tryggja fjárhagslegt svigrúm við lántöku, þar sem líklega myndu vextir hækka að nýju. Við getum að sjálfsögðu ekki séð allt hið óvænta fyrir en það borgar sig að reikna með breytingum sem gætu haft mikil áhrif á fjárhag heimilis okkar. Því er holl og góð æfing að spyrja sig af og til „hvað ef?“.





Fjárhagsleg heilsa 2024


Á nýju ári gefst tilefni til að taka til í fjármálunum. Mikilvægur þáttur í því er að huga að sambandi sínu við peninga í grundvallaratriðum. Það var með slíkt í huga sem ég var beðinn um að halda fyrirlestur á vettvangi VR sem bar heitið Fjárhagsleg heilsa 2024. Þar var ég raunar rækilega minntur á síbreytileika íslensks efnahagslífs því frá því erindið var tekið upp í upphafi desember og þar til það var birt á vefnum um fimm vikum síðar hafði gosið rétt við Grindavík, jákvæðar og aftur neikvæðar fréttir borist af kjaraviðræðum og verðbólgan hjaðnað meira en spáð hafði verið! Megin inntak erindisins hélt þó vonandi verðgildi sínu en þar ræddi ég áhrif mögulegrar þróunar efnahagsmála á heimilin í landinu. Ef við viljum tryggja betur fjárhagslega heilsu okkar þetta árið legg ég til að öryggi verði í forgrunni.


Nokkrar tímalausar reglur


Almennar reglur um örugg og heilbrigð heimilisfjármál gilda alltaf, óháð aðstæðum og efnahagssveiflu. Þær hjálpa auk þess til við að takast á við óvænta og erfiða tíma. Að sjálfsögðu er svigrúm fólks til að tileinka sér þessa hegðun mjög misjafnt og víða minna en áður, einmitt vegna ástandsins. En það hlýtur að vera tilraunarinnar virði að teygja sig í það minnsta í rétta átt.


  • Ekki taka ný lán – Geymdu eins og kostur er þá neyslu sem þú getur ekki staðgreitt. Það er óþarfi að gera aðra ríka með því að leka peningum úr heimilisbókhaldinu í hverjum mánuði.

  • Greiddu niður það sem þú skuldar – Veldu þér leið sem hvetur þig til dáða. Byrjaðu til dæmis að greiða niður lítið og dýrt lán og bættu greiðslubyrðinni sem sparast við innborganir á næsta lán og svo koll af kolli.

  • Eigðu varasjóð – Með hóflegum varasjóði má bregðast við óvæntum áföllum og tækifærum með því að taka lán hjá sjálfum sér í stað þess að dreifa greiðslum eða taka önnur rándýr neyslulán á borð við yfirdrátt.

  • Leggðu fyrir reglulega – Eini sparnaðurinn sem skilar árangri er sá sem lagt er í reglulega og sjálfvirkt. Skráðu aðskilinn sparnað í netbanka fyrir ferðalögum, jólum, fjárfestingum og fleiru. Breyttu sparnaðinum þannig í reikninga sem alltaf eru greiddir.

  • Hugaðu að efri árunum – Greiddu þín 4% í viðbótarlífeyrissparnað og byggðu upp góðan og sveigjanlegan eftirlaunasjóð.

  • Gerðu áætlun fyrir heimilið – Skammtaðu þér útgjöld mánaðarins. Hvort sem það er gert með reiðufé í umslögum eða agaðri notkun debetkorts hefur mörgum tekist að finna fjármuni í heimilisbókhaldinu með skýrri áætlun. Tilgreindu þá fjárhæð sem verja má í mat þennan mánuðinn, skemmtanir, fjölmiðla og fleira.


Með þessu sköpum við okkur aukið fjárhagslegt svigrúm og það er einmitt það sem reynist svo dýrmætt þegar á reynir vegna þess að lán eru áhættusöm og sparnaður trygging fyrir óvæntum áföllum. Eins og maðurinn sagði er það þegar flóðið fjarar út sem sést hverjir eru ekki í sundskýlu. Það er því mikilvægur þáttur fjárhagslegrar heilsu að vinna markvisst að því að draga úr skuldum og auka sparnað eins og kostur er.


Hvað ef?


Vissulega lítur út fyrir að ýmislegt sem gert hefur okkar persónulegu fjármál erfiðari upp á síðkastið horfi nú til betri vegar. Verðbólga hefur meðal annars hjaðnað og það glittir vonandi í vaxtalækkanir. Vonandi fer sem horfir en aftur bendi ég á að við búum á Íslandi og þótt oft sé varinn góður er hann óvíða betri en hér.


Aðstæður fólks eru mjög misjafnar en ef verðbólga hjaðnar hér hratt og vextir lækka ættu víða að skapast tækifæri til að vinna enn frekar á skuldum. Þar sem minna svigrúm er ætti þó í það minnsta að vera hægt að endurfjármagna lán á betri kjörum en áður og rekstur heimilisins að verða bærilegri.


Það er þó ekki útilokað að verðbólga verði hér þrálátari og vextir háir í lengri tíma. Við höfum áður gengið í gegnum slík tímabil og vitum hversu erfið þau geta verið. Vegna þeirrar óvissu sem sem nú ríkir þykir mér þetta því sérlega heppilegur tími fyrir heimili að ráðast í fjárhaglegt átak.


Setjum öryggi í fyrsta sæti og leggjum nú áherslu á að tryggja okkur sem allra best fyrir hverju því sem koma skal fjárhagslega. Svigrúmið er ekki alltaf mikið en reynum samt, allt hjálpar. Ég man ekki eftir að hafa séð eftir því að hafa litið á niðurföllin í vondri veðurspá eða tekið grillið inn.

 

 

bottom of page