top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Fyrrverandi á 5.000 kallinum

„Hvaða fólk er þetta með Ragnheiði Jónsdóttur á 5.000 kr. seðlinum?“

Mögulega er það til að freista þess að ræða eitthvað annað en forsetakosningarnar en ég hef borið þessa spurningu undir ansi marga undanfarna daga. Dreg ég þá upp brakandi ferskan 5.000 kr. seðlil og veifa honum framan í andlitið á þeim.

Falleg hönnun Kristínar Þorkelsdóttur


Við þekkjum seðilinn. Ragnheiður Jónsdóttir, biskupsfrú og hannyrðakona brosir þarna blíðlega framan í okkur, með sérkennilegan hatt á höfði. Hönnun Kristínar Þorkelsdóttur er að venju afar vel heppnuð og er bakgrunnur, gylling, og skrift seðilsins vísun í verk hennar og altarisklæði sem við getum í dag virt fyrir okkur á Þjóðminjasafninu. Á bakhlið seðilsins leiðbeinir Ragnheiður tveimur stúlkum en  ef við rýnum betur í framhliðina sjáum við þrjár aðrar manneskjur renna saman við bakgrunninn.

Smáatriðin


Í á fjórða áratug hef ég handleikið þennan seðil, greitt með honum og jafnvel skrifað greinar og kafla um fallegu íslensku peningaseðlana okkar. En ég skammast mín fyrir að viðurkenna að ég hafði ekki fyrr en nýlega fyrir því að kanna hvaða tríó húkir þarna í jaðri seðilsins eins og bakraddasöngvarar. Ætli ég hafi ekki gefið mér að þarna væri enn einn presturinn og stúlkurnar tvær sem Ragnheiður leiðbeinir á bakhliðinni.


Aðspurt hefur fólk í kringum mig stungið upp á að karlmaðurinn með síða skeggið hljóti að vera eiginmaður Ragnheiðar og hitt þar naglann á höfuðið. Gísli Þorláksson var biskup á Hólum á 17. öld. Í grein í Morgunblaðinu árið 2016 er Gísla lýst á þann veg að hann hafi virst viðkunnarlegur en „en þótti hvorki mikill lærdómsmaður né hafa háar gáfur“. Elsku kallinn. En jæja, hann rataði þó á 5.000 kr. seðilinn.


Hverjar eru konurnar?


Ekki gengur jafn vel að giska á hverjar konurnar tvær við hlið Gísla eru. Ef við lítum betur á þær bera þær ekki aðeins sömu skrítnu hattana og Ragnheiður, heldur líkjast þær henni. „Þetta eru dætur þeirra“ hafa sumir nefnt. En svo er ekki. Merkilegt nokk eru þetta fyrrverandi eiginkonur Gísla, þær Gróa Þorleifsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir. Þau Gróa giftust árið 1658, ári eftir að hann settist í stól föður síns, Þorláks Skúlasonar. Ingibjörgu kvæntist hann1664 og áratug síðar Ragnheiði. Merkilegt nokk var það Ragnheiður sem lét mála verkið sem framhlið seðilsins byggir á og þar standa þau fjögur saman. Gísla sjáum við fyrir miðri mynd gjóta augum til Ragnheiðar honum á hægri hönd og til vinstri standa hans fyrrverandi.


Verða fyrrverandi á fleiri seðlum?


Það var kominn tími á konu á íslenskum peningaseðli, en mér sýnist aðeins þrjár hafa prýtt þá áður. Fjallkonan var á bakhlið seðla frá 1886 og með breyttri hönnun 1907 og þá voru tvær konur á bakhlið 10 kr. seðils Kristínar frá 1981 sem sýnir húslestur í baðstofu. Hvers vegna smyrja þurfti eiginmanni Ragnheiðar á seðilinn veit ég ekki, hvað þá fyrrum eiginkonum hans. „Það er svolítið franskt“ nefndi einn. Gæti þarna verið fordæmi sem fylgt verður síðar?


Kannski mættum við spyrja okkur hver verði næst með makanum sínum og fyrrverandi hans á peningaseðli.


Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði MorgunablaðsinsComments


bottom of page