top of page

Breyting á hækkun greiðslna frá TR

Writer: Björn Berg GunnarssonBjörn Berg Gunnarsson

Tryggingastofnun ríkisins

Nýlega voru gerðar breytingar á þeim áhrifum sem taka lífeyris frá lífeyrissjóðum hefur á greiðslur ellilífeyris almannatrygginga frá Tryggingastofnun (TR).


Breytingin hefur aðeins áhrif á fólk fætt árið 1958 eða síðar

Áhrif þess að seinka umsókn


Fram til þessa hafa fjárhæðir greiðslna frá stofnuninni ekki aðeins verið tekjutengdar heldur einnig farið eftir því hvenær fólk sækir þar um. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig aldur hefur almennt áhrif á greiðslur, en einnig má sjá áhrifin í reiknivél lífeyris á vef TR.



Í kjölfar breytingar um síðastliðin áramót hækka greiðslur til þeirra sem fæddir eru 1958 eða síðar aðeins eftir 67 ára aldur ef ekki hefur þegar verið sótt um greiðslu lífeyris frá lífeyrissjóðum. Athugið að réttindin hækka þrátt fyrir það frá 65 til 67 ára aldurs eins og áður. Þau sem fædd eru 1957 eða fyrr munu ekki finna fyrir breytingunni.


Lítum á fjögur dæmi þessu til útskýringar:


Dæmi 1
  • 65 ára fæddur 1958 eða síðar hefur lífeyristöku frá lífeyrissjóðnum sínum

  • Vinnur til 67 ára aldurs og sækir þá um greiðslur frá TR

  • Greiðslur TR miða við 67 ára aldur


Dæmi 2
  • 65 ára fæddur 1958 eða síðar hefur lífeyristöku frá lífeyrissjóðnum sínum

  • Vinnur til 69 ára aldurs og sækir þá um greiðslur frá TR

  • Greiðslur TR miða samt sem áður við 67 ára aldur


Dæmi 3
  • 69 ára fæddur 1958 eða síðar hefur lífeyristöku frá lífeyrissjóðnum sínum

  • Vinnur til 70 ára aldurs og sækir þá um greiðslur frá TR

  • Greiðslur TR miða við 69 ára aldur


Dæmi 4
  • 65 fæddur 1957 eða fyrr hefur lífeyristöku frá lífeyrissjóðnum sínum

  • Vinnur til 70 ára aldurs og sækir þá um greiðslur frá TR

  • Greiðslur TR miða við 70 ára aldur


Ekki er gerður greinarmunur á því hvort sóttar hafa verið eingreiðslur frá lífeyrissjóðum eða fullar ævilangar greiðslur ellilífeyris. Ef ekki er sótt um allar lífeyrisgreiðslur á sama tíma (t.d. ef sótt er um frá einum lífeyrissjóði á undan öðrum) er litið til fyrstu útgreiðslu.


Áhrif breytingarinnar á lífeyristöku


Breytingin getur haft nokkur áhrif á ákvarðanir um lífeyristöku. Ef líkur eru á að unnið verði fram yfir 67 ára aldur og það lítur út fyrir að greiðslur muni berast frá TR gæti fólk þurft að hugsa sig tvisvar um áður en eingreiðslur eru sóttar snemma, svo dæmi sé tekið. Auk þess gæti gefist minna svigrúm en áður til að innleysa hagnað, sækja tegundir séreignar sem skerða greiðslur, selja eignir og fleira áður en sótt er um hjá stofnuninni.


Breytingin er vissulega enn einn hnúturinn í flækjunni sem fylgt getur lífeyristöku en sem fyrr þurfum við að fara varlega, lesa okkur vandlega til og passa upp á að allt sé gert í réttri röð.


Nánari upplýsingar um lífeyristöku má nálgast á vefnámskeiðinu Lífeyrismál og starfslok.


Smelltu á myndina til að líta á upplýsingasíðu um lífeyrismál, þar sem meðal annars má skrá sig á póstlista.

Björn Berg - Lífeyrismál

bottom of page