top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Verðmæti lífeyris

„Ég get augljóslega ekki beðið þar til það er orðið of seint“

sagði rithöfundurinn aðspurður um hvort hann væri ekki of ungur til að krota niður endurminningar sínar. Kveikjan að skrifunum var ljósmynd sem birtist af honum í bæklingi National Portrait Gallery í London. Þar stóð hann í góðum félagsskap en við lýsingu myndarinnar var hann fyrir mistök kallaður „heitinn“.

Það skerpir víst fátt einbeitinguna á við að lesa um sjálfan sig í þátíð. Sextugur dreif hann því í skrifunum og tveimur árum síðar var hann látinn.  

 

Það er aldrei að vita með eitt eða neitt og lífið er merkilega stutt. Hvenær ætlum við að gefa okkur tíma í það sem ávallt stendur til? Geymum við ferðalögin þar til hnén eru farin? Viljum við fyrst njóta ávaxta erfiðisins þegar okkur hugnast best ylurinn af sjónvarpinu og rólegheitin heima?

 

Dæmigerð starfslok


Við reynum sum að bæta úr því en umræða um lífeyrismál er enn mjög lítil. Því kemur ekki á óvart að miklar breytingar á lífeyriskerfinu fari framhjá flestum og almennt geri fólk ráð fyrir að lífeyristaka sé í dag og verði áfram eins og þeim málum hefur alltaf verið háttað; fólk vinnur eins og það getur og lifir svo á jöfnum mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum það sem eftir er. Það kann að henta mörgum en ég hef þó hvatt fólk til að gefa öðrum mögulegum útfærslum gaum.

 

Hvar liggja verðmætin?


Sveigjanleiki lífeyristöku er umtalsverður hér á landi og við getum oft stýrt aðgengi okkar að tekjum og eignum. Þannig getum við gengið úr skugga um að slíkt aðgengi sé sem mest þegar það hentar okkur best, til dæmis með notkun séreignar, snemmtöku lífeyris og uppbyggingu annars sparnaðar. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

 

Lífeyrismál eru sett fram sem krónutölur, prósentur, réttindi, inneignir, skerðingar og fleira. Hvergi er þó tilgreint hvert verðmæti þessara fjármuna er, enda þurfum við hvert og eitt að áætla það. Dæmi um mat á slíkum verðmætum er þegar við spyrjum okkur hvort milljón aðgengilegar krónur séu ekki mögulega verðmætari við 65 ára aldur en þegar við verðum 85 ára. Það er ekki víst að daglegt líf kosti sömu krónutöluna allan lífeyrisaldurinn. Kannski hentar okkur betur að hafa aðgengi að hærri fjárhæðum fyrr, til dæmis áður en við grípum of oft í setninguna „á meðan ég hef heilsu til“.

 

Verkefnið framundan


Sá aukni sveigjanleiki sem um ræðir gerir flókið kerfi vissulega enn flóknara, en tímakaupið við undirbúninginn er þó gott. Í stað þess að gleyma okkur alfarið í krónutölum lífeyrisgreiðslna skulum við byrja á að sjá fyrir okkur draumastarfslokin. Hve lengi langar okkur að vinna og í hvaða starfshlutfalli? Í hvað viljum við verja tíma okkar og hvað kostar það? Verkefnið á lífeyrisaldri er að greiða þá reikninga sem okkur langar að greiða, ekki að skilja eftir stærsta dánarbúið. Það er aukaatriði hvort reikningarnir eru greiddir með lífeyri, launum, fjármagnstekjum, úttekt séreignarsparnaðar eða flutningi úr dýrara húsnæði í minna.

 

Þetta gerist þó ekki að sjálfu sér og því vissara að setja sér það áramótaheit að nú skuli tekinn frá tími í þessar stóru og miklu pælingar. Við ættum augljóslega ekki að bíða þar til það er orðið of seint.

 

Börnin þurfa ekki allan þennan arf


Ég skal glaður tala fyrir hönd minnar kynslóðar þegar ég segi að það þarf ekki að hafa áhyggjur af okkur. Við björgum okkur. Markmiðið á ekki að vera að í erfidrykkjunni sé skálað fyrir hinum látna í örlítið dýrara víni, heldur að minnst sé fólks sem sannarlega kunni að njóta lífsins. Slíkt er ekki bara betra fyrir lífeyrisþegan sjálfan heldur verðmætari og betri gjöf fyrir börnin.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. desember 2023



 

 

Bókaðu tíma í ráðgjöf


Boðið er upp á faglega fjármálaráðgjöf á skrifstofu Björns í Hafnarhvoli, Tryggvagötu 11 í Reykjavík sem og á fjarfundi.




 

 

 


Skráðu þig á póstlista


Á lífeyrisvef Björns getur þú skráð þig á póstlista vegna lífeyrismála. Í fréttabréfinu koma fram upplýsingar um breytingar á lífeyriskerfinu og tíðindi þess efnis, dagsetningar næstu námskeiða og fleira.



bottom of page