top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Sveigjanleg starfslok með hálfum lífeyri?

Ég ætla ekki að fullyrða að Nýsköpunarverðlaun lífeyriskerfisins hafi aldrei verið veitt, en mér hefur ekki borist boðskort og hvað þá rekist á kokteilmyndirnar í Smartlandi. Það virðist fátt um rúllukragaklædda menn á sviði með uppbrettar ermar og í strigaskóm klappandi sjálfum sér og salnum á bakið vegna kraftmikils frumkvöðlastarfs og nýsköpunar á sviði lífeyrismála.


Af umfjölluninni að dæma mætti ætla að lítið sé um nýsköpun í lífeyrismálum hér á landi en því fer þó fjarri og þótt ég treysti mér ef til vill ekki til að sölutryggja miða á ráðstefnu um málefnið er ég þess fullviss að nægt framboð yrði af áhugaverðum fyrirlestrum.


Skemmtileg nýjung


Meðal þeirra nýjunga sem hvað helst hafa vakið athygli mína er hálfur lífeyrir. Með honum gefst fólki sem náð hefur 65 ára aldri færi á að lækka sig í eða undir hálft starfshlutfall en sækja greiðslur á móti svo mæta megi því tekjutapi sem fylgir minni vinnu. Þetta getur verið kærkomið þar sem ég efast ekki um að mörgum hugnist vel að taka skref út af vinnumarkaði, til dæmis með því að fara í hálft starf, í stað þess að stökkva beint úr fullri vinnu í enga. Það er þó ekki víst að við getum öll rekið heimilið okkar og greitt reikninga með hálfum launum. Hálfum lífeyri er ætlað að gera slíkt skref raunhæfara og ég er ekki frá því að útfærsla hans sé ansi gott dæmi um gagnlega, einfalda og vel heppnaða nýsköpun sem reynst getur mörgum vel.


Hvernig virkar þetta?


Að því gefnu að viðkomandi lífeyrissjóðir bjóði upp á slíka útfærslu er óskað eftir að réttindum sjóðfélaga sé skipt í tvennt. Annar helmingurinn bíður þess að sótt sé um fullan lífeyri og en strax eru hafnar útgreiðslur úr hinum helmingi réttindanna. Hversu miklar þær greiðslur verða fer eftir aldri við umsókn. Í kjölfarið er haft samband við Tryggingastofnun ríkisins (TR) sem gerir slíkt hið sama; skiptir réttindum í tvennt og hefur greiðslur hálfra réttinda.


Greiðslur hálfs lífeyris TR geta þó orðið nokkuð hærri en ætla mætti. Er það sökum þess að gert er ráð fyrir því og raunar ætlast til þess að umsækjandi sé í vinnu. Frítekjumark hálfs lífeyris TR er því umtalsvert hærra en sambærilegt frítekjumark þegar sótt er um fullan lífeyri. Þetta getur jafnvel orðið til þess að hálfur lífeyrir TR sé talsvert hærri en helmingur fulls lífeyris væri, ef viðkomandi hætti alfarið störfum.


Dæmi um greiðslur


Eftir almenna hækkun greiðslna TR um 2,5% nú í upphafi mánaðar getum við til gamans (eins og langt og gamanið nær þegar rætt er um lífeyrismál) litið á einfalt dæmi.

Einstaklingur í sambúð sækir um hálfan lífeyri samhliða því sem hann fagnar 65 ára afmæli sínu. Hann fékk áður 800.000 kr. á mánuði í laun en fer í hálft starf og launin lækka því í 400.000 kr. Full réttindi hans í lífeyrissjóðum nema 400.000 kr. og hálfar lífeyristekjur því 200.000 kr.


Vegna þessara tekna greiðir TR honum 108.834 kr. á mánuði í formi hálfs lífeyris. Í stað 800.000 kr. brúttótekna í fullri vinnu nema tekjur hans nú 708.834 kr. í hálfu starfi.


Er þetta góð hugmynd?


Okkur hættir til að líta á lífeyrismál sem bókhaldsverkefni þar sem markmiðið er að hámarka tekjur eða skilja eftir stærsta dánarbúið. Ég hallast þó að því að skynsamlegra væri að líta til þess hvernig fjármunirnir nýtast. Spyrjum okkur hvernig og hvenær lífeyririnn hentar okkur best, með tilliti til þess hvernig við viljum haga efri árunum og síðustu árunum á vinnumarkaði.


Hálfur lífeyrir kemur ekki til með að henta öllum. En þar sem allt of sjaldan er rætt um lífeyrismál og ráðstefnurnar rata seint á síður blaðanna, ef þær eru þá haldnar, er ég hræddur um að áhugaverð nýsköpun á borð við þessa fari fram hjá mörgum. Því er hætt við að færri viti af hálfum lífeyri en gætu haft hag af því að nýta hann.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu



 

Bókaðu tíma í ráðgjöf

Boðið er upp á faglega ráðgjöf um lífeyrismál og starfslok á skrifstofu Björns í Hafnarhvoli, Tryggvagötu 11 í Reykjavík sem og með öruggum fjarfundarbúnaði Köru Connect.


 

Skráðu þig á póstlista

Á lífeyrisvef Björns getur þú skráð þig á póstlista vegna lífeyrismála. Í fréttabréfinu koma fram upplýsingar um breytingar á lífeyriskerfinu og tíðindi þess efnis, dagsetningar næstu námskeiða og fleira.



bottom of page