Menntamálaráðherra lýsti á dögunum áhyggjum sínum af spekileka frá landinu. Það er gott að hið opinbera gefi málefninu gaum en vegna smæðar samfélagsins og takmarkaðra tækifæra ætti ekki að koma á óvart að sprenglært fólk kjósi af og til að freista gæfunnar utan landsteinanna.
Í ljósi þessa mætti hvetja til þess að kraftur verði lagður í aðildarferli Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA). Það er auðvelt að afskrifa og gera grín að draumórum um íslenska geimferðaáætlun en málið snýst um allt annað og meira. Á verksviði stofnunarinnar er margvísleg starfsemi, allt frá hugbúnaðarþróun að jarðfræði og veðurrannsóknum. Hver aðildarþjóð stýrir sinni þátttöku að umtalsverðu leyti og leitast þannig við að nýta krafta síns fólks sem best.
Fjárframlag hvers lands byggir á landsframleiðslu þess og umfangi þátttöku. Evrópusambandsþjóðir, auk Noregs, Sviss og Kanada, eru aðilar að stofnuninni en ESB leggur auk þess til tæpan fjórðung fjárframlaga. Að lágmarki er andvirði greiðslna til ESA svo látið renna til baka til aðildarþjóðar í formi verkefna sem leyst eru þar í landi. Framlögin eru því í raun ekki greidd úr landi heldur nýtast að fullu í vísindastarf heima fyrir auk þess sem allir njóta góðs af viðamiklu samstarfi á sviði stofnunarinnar. Ef þátttaka okkar Íslendinga væri hlutfallslega svipuð og þátttaka hinna Norðurlandaþjóðanna að jafnaði næmu árleg fjárframlög okkar um 390 milljónum króna. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn varðandi stöðu mála fyrir nokkru kom þó fram að framlagið gæti orðið umtalsvert minna, en umsóknarferlið sjálft gæti þó tekið „um eða yfir áratug“. Það teldi ég góða fjárfestingu en of langan tíma.
Fjöldi Íslendinga starfar nú í útlöndum við verkefni sem hægt væri að bjóða upp á hér á landi ef Ísland gerðist aðili að ESA. Aðildin væri mikilvægur tappi í spekilekann sem menntamálaráðherra ræddi, væri lyftistöng fyrir raungreinanám og byði íslensku vísindafólki fleiri og áhugaverðari atvinnutækifæri.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu
댓글