Þau voru varla að gera að gamni sínu sem bættu séreignarsparnaði við lífeyriskerfið á sínum tíma. Ætli hvatinn hafi ekki verið sá að það nægði tæplega að treysta að fullu á lífeyrissjóðinn sinn og varasparnað til að hafa það gott á efri árunum? Við getum í öllu falli þakkað fyrir að þetta skref hafi verið tekið og sömuleiðis að 60 ára aldurstakmark hafi verið sett á úttekt sparnaðarins.
Upphaflegt hlutverk séreignar á nefnilega enn fullan rétt á sér. Við munum mörg þurfa á þessum aurum að halda til að bæta okkur tekjutap við starfslok eða hafa möguleika á sveigjanlegum starfslokum. Þar að auki vitum við ekki hverjar ævilíkur okkar verða eða staðan á vinnumarkaði í framtíðinni og óvíst er hvort mögulegt verði að ávaxta fé til framtíðar á þeim vöxtum sem við höfum vanist fram til þessa. Séreignarsparnaður er enn eins verðmætur og mikilvægur liður í áhyggjulausu ævikvöldi og hann hefur alltaf verið.
Ég skal viðurkenna að það fór alveg fram hjá mér þegar ákveðið var að gera breytingar á þessu meginhlutverki séreignar. Að nú væri séreign sjóður sem seilast mætti í við ýmis tilefni og óþarft væri að geyma hann til sextugs, þótt góðar ástæður væru gefnar fyrir slíku.
Í kjölfari efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug var í fyrsta sinn opnað fyrir úttekt séreignar óháð aldri. Síðar var okkur leyft, skattfrjálst, að leggja mánaðarleg iðgjöld beint inn á fasteignalánin í stað þess að safna þeim. Þá var leyfi gefið fyrir skattfrjálsri úttekt til útborgunar í fyrstu íbúð. Loks var 60 ára aldurstakmarkið öðru sinni afnumið, vegna kórónuveirufaraldursins.
Góður vilji er að baki öllum þessum ákvörðunum en eftir situr að við tókum aldrei umræðuna um að breyta kerfinu með þessum hætti. Ein algengasta eftirsjá fólks á eftirlaunaaldri er að hafa ekki lagt meira fyrir og hærra mætti nú heyrast í þeim sem hafa reynslu af því að lifa á lífeyri einum saman. Það getur verið fyllilega réttlætanlegt að nýta þau úrræði sem veita nú aðgengi að séreigninni fyrir sextugt en erum við fyllilega upplýst um hverju við erum að fórna í staðinn?
Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál