Það má þakka þeim fyrir ýmislegt nytsamlegt. Svíar færðu okkur bílbeltið og Lars Lagerbäck. En þeim hættir þó til að mistakast hrapalega. Þannig sökk merkilegasta skip þeirra eftir rétt kílómeters siglingu, Alfred Nobel sprengdi bróður sinn í loft upp, skánski framburðurinn er kapituli út af fyrir sig og loks er það vöskunin, eða „vaskning“.
Hvernig datt þeim þetta í hug?
Það hljómar ef til vill of sænskt til að geta verið satt, en fyrir rúmum áratug þótti víst smart að panta tvær kampavínsflöskur á skemmtistað og láta hella annarri þeirra í vaskinn. Meðan á vitleysunni stóð fylgdist kaupandinn útbelgdur og stoltur með, í veikri von um að ganga í ranghvolfandi augun á öðrum gestum.
Að sjálfsögðu er þetta fyrir neðan allar hellur. Fyrir utan sóunina sem í þessu felst myndi enginn heilvita maður (og þetta stunduðu víst aðallega karlmenn) greiða tvöfalt verð fyrir drykkinn að óþörfu. En hvað ef vöskunin væri þægileg og skiljanleg í ljósi aðstæðna? Nei, hvernig læt ég.
Íslenska vöskunin
Okkur dytti ekki í hug að vaska, bullið er bara of augljóst, svona förum við ekki með peninga. Þó má segja að hérlendis hafi tekist að lauma ákveðinni tegund vöskunar inn á lista þess sem telja má eðlilegan hluta heimilisfjármála. Á sínum tíma mátti semja um staðgreiðsluafslátt í verslunum en í dag erum við þvert á móti hvött til að greiða umtalsvert meira fyrir vörur og þjónustu en sem nemur söluverðinu. Hvernig gerðist þetta?
Þetta var einn stór misskilningur. Við héldum að það sem væri þægilegt og aðgengilegt væri þess vegna í lagi. Hvers vegna að safna fyrir bíl ef þú getur fengið draumabílinn strax? Allt er þetta sjálfvirkt og þægilegt, einhverjar krónur eru færðar af bankabókinni í hverjum mánuði og annað þurfum við ekki að gera nema bara að velja litinn. 9 milljóna króna bíllinn, sem við fáum 4 fyrir í dag kostaði kannski 13 milljónir, en þetta gera allir og af hverju má ég ekki líka vera á bíl sem ég hef ekki efni á?
Nú er svo komið að greiðsludreifingar eru alltumlykjandi. Okkur er boðið að dreifa kaupum á heyrnartólum þar sem árleg hlutfallstala kostnaðar nemur yfir 40%. Fyrst er farið í frí til útlanda og svo er kreditkortareikningnum dreift með 17% vöxtum í kjölfarið. Nú er meira að segja hægt að kaupa snúð og kókómjólk á láni í matvöruverslum. Allt er þetta mjög þægilegt og aðgengilegt, endilega hefur tækni við greiðslumiðlun fleygt fram á undanförnum árum. En þetta er bara misskilningur og við þurfum að leiðrétta hann. Neyslulán eru alveg jafn slæm í dag og þau voru þegar lausnirnar buðust ekki.
Vindum ofan af þessu
Okkur er greinilega eðlislægt að bíta á agnið. Við virðumst vilja njóta núna og takast á við kostnaðarsamar afleiðingarnar síðar. En innst inni held ég að við viljum flest fremur hafa það betra fjárhagslega til lengri tíma og haga okkur skynsamlega. Við þurfum því hvert og eitt að reisa okkur varnarmúra gegn freistingum neyslulána, rétt eins og við erum þessa dagana hvött til að varast netsvik. Við ranghvolfum réttilega augum yfir vaskandi Svía og sömuleiðis ættu einföld prinsipp að hnippa í okkur þegar við hugleiðum neysluskuldir. Slík prinsipp hvetja til sparnaðar, bæta fjárhagslega heilsu okkar, auka öryggi og tryggja okkur bjartari fjárhagslega framtíð. Við verðum mun þakklátari fyrir að hafa tamið okkur slíka hegðun en fyrir ljósmyndina af kampavíninu á leið í vaskinn, þótt það megi vissulega hlægja að henni.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum
Kommentare