top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Margt veltur á Xbox og PlayStation

Tölvuleikir velta um 1.500 milljörðum króna ár hvert. Um 50 milljónir leikjatölva eru auk þess seldar en þrátt fyrir það sitja einungis þrír framleiðendur að því sem næst öllum markaðinum, Nintendo, Sony og Microsoft. Eðlilega er næstu kynslóðar leikjatölva því beðið með mikilli eftirvæntingu, en von er á nýjum Xbox- og PlayStation-tölvum fyrir næstu jól.


Fáir eru um hituna þó vinsældir leikjatölva virðist aldrei hafa verið jafn miklar og hagnaðarvonin sömuleiðis, en þannig hefur það raunar verið um langt árabil. Vinsælir leikjatölvuframleiðendur gufa upp nær fyrirvaralaust þegar nýir ryðja sér til rúms og það virðist sjaldan pláss fyrir fleiri en tvo til þrjá í einu. En hvernig stendur á því að ítrekað sé fyrirtæki sem virtist hafa heiminn lagt að fótum sér nú aðeins að finna í minningunni?


Einn þessara risa er Commodore. Jack Tramiel, stofnandi fyrirtækisins, var merkilegur maður sem vel er tímans virði að kynna sér. Hann setti fyrirtækið á fót í Bandaríkjunum um miðjan sjötta áratuginn eftir að hafa flust þangað í kjölfar nauðungarvistar í Auschwitz og síðar Ahlem í síðari heimsstyrjöldinni.


Hann hafði lært að gera við ritvélar og þegar hann færði í sig inn á reiknivélamarkaðinn og síðar í borðtölvur var leikjatölvubransinn rétt að fæðast í þeirri mynd sem við þekkjum í dag og leikirnir að færast í auknum mæli úr spilasölum heim í stofu. Þó deila megi um hvort flaggskip Tramiel, 8 bita dýrgripurinn Commodore 64 frá árinu 1982, skuli flokkaður með leikjatölvum eða borðtölvum, seldist tölvan í stærra upplagi en nokkur önnur borðtölva sögunnar. Hagnaður af hverri seldri tölvu var takmarkaður í upphafi en jókst svo jafnt og þétt og ljóst er að tölvusala skilaði fyrirtækinu umtalsverðum hagnaði þegar best lét.


En leikjatölvuiðnaðurinn er miskunnarlaus og það þarf raunar bara ein mistök til að ljósin séu kveikt og samkeppnisaðili mæti með kústinn og biðji okkur vinsamlegast um að yfirgefa partíið. Nintendo rétt lafði eftir útgáfu GameCube-tölvunnar. Sega lagði upp laupana í kjölfar Dreamcast, Jaguar og Lynx gerðu út af við Atari og svo fór að Commodore, þrátt fyrir C64 og hinar vinsælu Amiga-tölvur, gat ekki skilað hagnaði þegar komið var fram á tíunda áratuginn og varð gjaldþrota árið 1994, tólf árum eftir að hafa sett vinsælustu borðtölvu sögunnar á markað.


Það er ekki þar með sagt að allt sé undir hjá Sony og Microsoft í haust, en það má þó gefa sögunni gaum við þetta tækifæri.


Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Comments


bottom of page