top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Voru ofurdeildarpeningarnir nauðsynlegir?

„Ég vil búa til nýja deild. Þátt­tökuliðin verða 20-24 tals­ins, flest með fast sæt­i.“ Þetta sagði Gianni Infantino, for­seti alþjóða­knatt­spyrnu­sam­bands­ins FIFA fyrir ein­ungis einu ári síð­an. Þetta kann að hljóma nokkuð falskt í ljósi þess hve ein­dregið hann virt­ist leggj­ast gegn áformum um stofnun svo­kall­aðrar ofur­deildar Evr­ópu á dög­un­um. En Infantino var ekki að tala um Evr­ópu. Þetta sagði hann á ráð­stefnu í Marokkó og vís­aði þar til hug­mynda um ofur­deild Afr­íku.


Hefur hann skipt um skoð­un? Er ofur­deild ekki lengur í lagi nú þegar hávær mót­mæli heyr­ast eða er þetta ef til vill dæmi um hve knatt­spyrnu­hreyf­ingin virð­ist í sífellu líta niður á Afr­íku­þjóð­ir? Það má svo sem vel vera en þær áskor­anir sem íþróttin stendur frammi fyrir í álf­unum tveimur eru svo ólíkar að nálg­ast þarf þær með gjör­ó­líkum hætti. Það má vel færa rök fyrir því að þörf sé á stofnun sterkrar og mark­aðsvænnar knatt­spyrnu­deildar þvert yfir Afr­íku. Bestu leik­menn álf­unnar kepp­ast við að kom­ast til Evr­ópu við fyrsta tæki­færi og þar hefur aldrei tek­ist að byggja upp sterk lið eða deildir þrátt fyrir ofgnótt hæfi­leik­a­ríkra leikmanna.


En hlut­unum er öfugt farið í Evr­ópu. Þar er ég ekki svo viss um að þörf sé fyrir að laga nokkurn skap­aðan hlut, nema mögu­lega til­burði og þanka­gang á borð við þann sem end­ur­spegl­ast í áformum um evr­ópskra ofur­deild. Með stofnun deild­ar­innar átti að freista þess að auka tekjur þátt­tökulið­anna en algjört hrun þeirrar til­raunar og orð­spors þeirra sem fyrir henni stóðu gefa okkur nú til­efni til að velta fyrir okkur hlut­verki og stöðu grein­ar­innar í fjár­hags­legu ljósi.


Staðan eftir kór­ónu­krepp­una

Hug­myndin um evr­ópska ofur­deild er aldeilis ekki ný af nál­inni. Henni hefur verið varpað fram sem hótun í við­ræðum valda­mestu félaga álf­unnar og evr­ópska knatt­spyrnu­sam­bands­ins UEFA um langa hríð. Stærstu félögin telja sig eiga rétt á stærri sneið kök­unnar sem þau rétti­lega segj­ast einkum bera ábyrgð á að hafi stækkað eins og raun ber vitni und­an­farin ár. Láti UEFA ekki undan setji félögin ein­fald­lega á fót sína eigin keppni. Skyndi­lega, illa skipu­lagða og fljót­færn­is­lega útfærða stofnun deild­ar­innar má þó vænt­an­lega frekar rekja til þeirra fjár­hags­vand­ræða sem fylgt hafa COVID-19 far­aldr­inum en að eftir ára­langan und­ir­bún­ing hafi nú verið tíma­bært að taka í gikk­inn.


Það skal ekki gera lítið úr þeim erf­ið­leikum sem knatt­spyrnu­lið út um allan heim hafa glímt við að und­an­förnu. Þó áætl­anir séu á reiki er ljóst að tjónið er umtals­vert. FIFA hefur áætlað að tap íþrótt­ar­innar á síð­asta ári hafi verið í námunda við 2.000 millj­arða króna, sem er um þriðj­ungur árlegrar veltu og segir Andrea Agn­elli, for­seti Juventus á Ítalíu og einn for­svars­manna hinnar mislukk­uðu ofur­deild­ar, að stærstu félög álf­unnar hafi orðið af um 1.000 millj­örðum króna frá því far­ald­ur­inn sendi áhorf­endur heim í stofu í byrjun síð­asta árs. Er þetta mun meira en sam­tök evr­ópskra knatt­spyrnu­liða áætl­uðu síð­ast­liðið haust þegar talið var að sam­an­lagt tap allra knatt­spyrnu­liða álf­unnar á yfir­stand­andi og liðnu tíma­bili væri um 600 millj­arðar króna. Hver svo sem hin rétta tala er er ljóst að allir hafa tap­að. Því fer þó fjarri að stofn­fé­lög ofur­deild­ar­innar geti dregið sig sjálf út fyrir sviga og sagt kór­ónu­krepp­una rétt­læta neyð­ar­björgun með stofnun deildar sem í sömu svipan getur dregið úr tæki­færum ann­arra til að rétta af rekst­ur­inn þegar bolt­inn fer aftur að rúlla með hefð­bundnum hætti.


Að krepp­unni yfir­stað­inni verður aðstöðu­munur bestu félaga álf­unnar og ann­arra sá hinn sami og þau bjuggu við í aðdrag­anda henn­ar. Þó svo fjár­hags­staða allra verði verri vegna krepp­unnar og félög hafi þurft að ganga á lausafé og auka skuld­setn­ingu koma félögin tólf sem um ræðir og örfá til við­bótar til með að hafa aðgengi að fjár­magni sem öðrum bjóð­ast ekki í sama mæli. Slíkt gefur þeim færi á að vaxa hraðar en sam­keppnin og rétta fyrr úr kútn­um, ef rétt er haldið á spil­un­um. Meðal félag­anna tólf er staðan misslæm. Mílanó­fé­lögin tvö (sem vænta má að hafi mestan hag af stofnun nýrrar deild­ar) og spænsku stór­liðin Real og Barcelona eru vænt­an­lega í við­kvæm­astri stöðu og liggur Barcelona þar mest á þar sem stór hluti him­in­hárra skulda félags­ins eru skamm­tíma­skuldir við lána­stofn­an­ir. Við­kvæm staða þeirra hefur sann­ar­lega versnað vegna veirunnar en hún var slæm fyrir og engum öðrum er um að kenna en félög­unum sjálf­um, eða nánar til­tekið for­svars­mönnum þeirra. Sú rök­semda­færsla að mik­il­vægt sé að auka með þessum hætti tekjur vegna efna­hags­legra áhrifa veirunnar heldur ekki vatni. Rekstur félag­anna er ein­fald­lega of dýr og tekj­urnar hafa ein­ungis dreg­ist saman tíma­bund­ið. Sé skyn­sam­lega staðið að rekstri félag­anna er engin ástæða til að ætla annað en að þau geti haldið áfram að skemmta stuðn­ings­mönnum sínum út um allan heim, þótt sum þurfi ef til vill að draga saman seglin tíma­bund­ið. Þetta snýst ekki um óvenju­leg við­brögð við ein­staka áhrifum kór­ónu­veirunn­ar. Nei, raun­veru­leg ástæða stofn­unar ofur­deild­ar­innar sál­ugu mættum við kalla þrí­þætta:

  • Að bjarga félög­unum tólf úr skamm­tíma­þreng­ingum með inn­spýt­ingu fjár­magns

  • Að fela félög­unum yfir­ráð yfir reglum og tekju­skipt­ingu móts­ins

  • Að tryggja félög­unum stöðugar tekjur til lengri tíma

Hefðu áformin náð fram að ganga hefði fram­an­greint haft í för með sér yfir­burði þátt­tökulið­anna í evr­ópskri knatt­spyrnu til lang­frama. Þó svo nákvæmar útfærslur hafi vantað var reiknað með að tekjur þeirra 20 liða sem í heild sinni mættu til leiks næmu um 1.000 millj­örðum íslenskra króna fyrsta árið og færu jafn­vel vax­andi. Um er að ræða tvö­faldar tekjur Meist­ara­deildar Evr­ópu og hvort sem fyr­ir­ætl­anir stjórn­enda lið­anna hljómi trú­verð­ugar eða ekki er ljóst að hefðu þær ekki verið flaut­aðar af áður en leikur hófst hefði bilið milli þeirra stærstu og allra hinna auk­ist meira en nokkru sinni fyrr.


Þarf fót­bolti að vaxa?

Flor­entino Pérez, for­seti Real Madrid, gagn­rýndi for­ystu UEFA harð­lega þegar hann varði stofnun ofur­deild­ar­innar með kjafti og klóm. Hann sagði sam­band­inu ekki treystandi fyrir því mik­il­væga verk­efni að auka tekjur knatt­spyrn­unnar og aðdrátt­ar­afl hennar sömu­leið­is, einkum meðal yngstu mark­hópanna. En er slíkt nauð­syn­legt? Er fót­bolti eins og hag­kerfi sem þarf heil­brigðan hag­vöxt svo hægt verði að bæta lífs­kjör íbú­anna og fjár­magna nýsköpun sem gerir líf þeirra betra?


Með auknum tekjum grein­ar­innar í heild sinni hefur vissu­lega orðið til fjár­magn sem nýta hefur mátt í upp­bygg­ingu knatt­spyrnu­legra inn­viða víða um heim. Aðstaða til æfinga og keppni er betri, fjöl­margir hafa getað gert íþrótt­ina að lifi­brauði sínu og þó lítið hafi verið um slíkt hafa hænu­skref verið stigin til að efla kvennaknatt­spyrnu. Sums staðar hafa stærstu félög Evr­ópu fjár­fest í nærum­hverfi sínu og ein­staka leik­menn hafa getað nýtt him­in­háar tekjur sínar og áhrif til góðs. Það má sann­ar­lega finna upp­byggi­legar og gagn­legar leiðir til að verja miklum tekju­vexti en getur verið að nei­kvæðu áhrifin vegi þyngra?


Meðal eig­enda félag­anna tólf má finna fáa stuðn­ings­menn. Eign­ar­hald er mis­jafnt milli landa og innan þeirra en bættur rekstur stærstu félag­anna hefur að und­an­förnu vakið áhuga fjár­festa sem ekk­ert mark­mið hafa annað en heil­brigðan hagn­að, rétt eins og í hverjum öðrum rekstri. Í atvinnu­líf­inu er gott að eig­endur vilji hagn­að, leggi áherslu á hag­kvæman rekst­ur, vöxt og nýsköpun sem stutt getur við þann vöxt. En í fót­bolta getur slíkt orðið til þess að slíta félögin frá því sem ég (og les­andi von­andi sömu­leið­is) tel hlut­verk félag­anna. Rai­son d‘être allra fót­boltaliða, ástæða þess að þau eiga sér til­veru­rétt, er að skemmta stuðn­ings­mönnum og það má gera með ýmsum hætti. Góður árangur gleður flesta, skemmti­legur heima­völlur sömu­leiðis og auð­vitað spenn­andi sam­keppni. En vöxtur sem slíkur og hagn­aður sem feng­inn er með því að tefla fjár­hags­legri fram­tíð ann­arra í hættu, rukka stuðn­ings­menn himinháar fjár­hæðir fyrir aðgöngu­miða og draga úr sér­kennum félag­anna er of dýru verði keypt­ur.

Kenn­ingin sem þetta virð­ist í raun allt byggja á er að fót­bolti sé bil­aður og hann þurfi að laga. Í stað þess að bæta hann með því að auka sam­keppni, rækta minni félög, bik­ar­keppnir og ein­kenni ólíkra liða skal öllu steypt í sama mót og hið aðkallandi vanda­mál er að rík­ustu lið­in, sem komu sér í bull­andi vand­ræði sjálf, þurfa meiri tekjur og stöðugan sess meðal þeirra bestu.


Stofnun ofur­deildar þurfti ekki til þess að auka tekjur knatt­spyrn­unn­ar. Þær munu til fram­tíðar aukast sam­hliða því að það fjölgar í hinni alþjóð­legu milli­stétt, einkum í Asíu og fleiri hafa færi á að verja sparifé í áhuga­málin sín. Þar hafa þessi sömu félög for­skot og munu selja meira, eign­ast fleiri stuðn­ings­menn og gefa aug­lýsendum sínum aðgang að gjöf­ulli mörk­uð­um. Fót­bolti þarf ekki að vaxa en hann gerir það nú samt. Að beina þeim vexti í enn rík­ari mæli til félag­anna sem þegar halda á öllum tromp­unum býður þó hætt­unni heim, verður ekki til þess að efla íþrótt­ina í heild sinni eða gleðja áhuga­fólk.


Eig­endur og for­svars­menn félag­anna kepp­ast nú við að kreista fram tárin og biðj­ast afsök­un­ar. Höfum það þó á hreinu að þeir eru að gráta 1.000 tap­aða millj­arða, ekki að átta sig á að raun­veru­lega hafi þeir gert mis­tök og hafi nú skipt um skoð­un.


Greinin birtist fyrst í Vísbendingu og á Kjarnanum

bottom of page