top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Und­ir­bún­ing­ur starfs­loka

Það er aldrei of seint að kynna sér lífeyrismálin en tímasetningin kemur til með að ráða heilmiklu um þá möguleika sem okkur bjóðast.

Ef taka lífeyris er þegar hafin er gott að þekkja þær reglur sem gilda um hina ýmsu anga lífeyriskerfisins, svo sem ef innleysa á fjármagnstekjur, selja sumarbústaðinn eða þiggja hlutastarf. Enn betra er þó að undirbúa lífeyristökuna nokkrum árum fyrir starfslok. Þá má freista þess að haga lífeyristökunni með þeim hætti að hámarka megi tekjur með tilliti til skattgreiðslna og hvenær okkur hentar að nálgast sparnað og lífeyri.

Yngra fólk getur loks aukið sparnað með það að markmiði að fjölga valkostum við starfslok eða auka tekjur. Með reglulegum sparnaði og samviskusamlegum greiðslum í séreign má auka líkur á að mögulegt verði að lækka starfshlutfall á einhverjum tímapunkti, hætta á vinnumarkaði fyrr en ella eða hafa hreinlega meira á milli handanna á eftirlaunaaldri.

Hér skulum við þó einkum beina sjónum okkar að því sem gott er að hafa í huga í aðdraganda starfsloka.

Hvar skal byrja?

Undirbúningur starfsloka er tímafrekur, flókinn og skemmtanagildið er takmarkað. Það borgar sig þó að bíta á jaxlinn og gefa sér ríflegan tíma því tímakaupið getur verið afar gott þegar upp er staðið. Íslenska lífeyriskerfið hefur sannarlega sína kosti og galla sem birtast sem dæmi í þeim mikla sveigjanleika sem í boði er við töku lífeyris. Við getum sótt um greiðslur frá Tryggingastofnun á milli 65 og 80 ára aldurs og það er ekki ólíklegt að svipað sé í boði hjá lífeyrissjóðnum okkar auk þess sem séreign er almennt laus til úttektar eftir sextugt. Loks er heimilt að sækja hálfan lífeyri hjá lífeyrissjóðum og TR. Þennan mikla sveigjanleika eigum við að geta nýtt okkur til að koma betur út fjárhagslega en ella, en til að slíkt sé mögulegt þurfum við að kynna okkur kerfin nokkuð vel og það er nú vandamálið. Fæstir hafa nokkurn minnsta áhuga á lífeyrismálum og fáir kynna sér málin það vel að mögulegt sé að nýta þá kosti sem í boði eru.

Vörum okkur á kaffistofunni

Þegar ákvarðanir um töku lífeyris eru teknar er lykilatriði að þær séu upplýstar og byggi á núgildandi fyrirkomulagi og reglum. Þá dugar ekki að afla sér fróðleiks á kaffistofunni eða í umræðuþáttum í útvarpi, ekki síst þar sem lagaumhverfið breytist ótt og títt og úreldar upplýsingar geta lifað lengi í umræðunni. Sökum fljótfærni og dreifingu úreldra upplýsinga eru kostnaðarsöm mistök því miður allt of algeng í tengslum við fjármál við starfslok.


Séreignarsparnaðurinn

Eitt dæmi um rangfærslur sem því miður er of oft haldið að fólki er að mikilvægt sé að séreignarsparnaður sé tekinn út áður en hætt er að vinna og sótt um hjá TR. Þannig voru reglurnar vissulega fyrir á annan áratug síðan en í dag skerðir séreign ekki ellilífeyri stofnunarinnar með nokkrum hætti. Raunar er ávöxtun séreignarsparnaðar undanskilin þegar skerða á greiðslur. Sé séreign tekin út í flýti, ofan á launatekjur eru líkur á að óþarfa hátekjuskattur sé greiddur af úttektinni og skerðingar aukist, þar sem sparifé er ekki lengur innan séreignarkerfisins. Þetta getur valdið auknum skattgreiðslum og skerðingum þegar ætlunin var að spara. Skerðingar TR gefa því ekki tilefni til að haga úttekt séreignar með tilteknum hætti, en hvenær og hvernig er þá best að nálgast sparnaðinn?

Séreign er að flestu leyti frábrugðin réttindum í lífeyrissjóði og er í raun líkust hefðbundnum sparnaði á reikningi eða í sjóði. Inneignin erfist að fullu, hjá íslenskum umsjónaraðilum er fjöldi kosta í boði hvað ávöxtun varðar og úttekt er hagað með þeim hætti sem óskað er eftir. Því er hægt að nýta séreign sem varasjóð sem sótt er í eftir þörfum, millifæra fasta upphæð í hverjum mánuði eða taka út eins fljótt og kostur er, að teknu tilliti til skattgreiðslna. Það er því persónubundið hvað hentar best.


Lífeyrissjóðurinn

Til allrar hamingju er nú miðlægt yfirlit yfir nær öll íslensk lífeyrisréttindi að finna í Lífeyrisgáttinni sem nálgast má á vefsíðum lífeyrissjóðanna. Þar hefjum við undirbúning okkar hvað samtryggingarréttindi varðar. Í kjölfarið er gott að hafa samband við viðkomandi lífeyrissjóði og fá skriflegar upplýsingar um makalífeyri og áhrif þess að flýta eða seinka umsókn, svo dæmi séu tekin. Sé taka lífeyris hafin er ekki aftur snúið og því borgar sig að vanda vel til verka.

Lífeyrissjóðir gefa yfirleitt upp tiltekinn viðmiðunaraldur lífeyristöku, til dæmis 67 ára. Sjóðfélaginn sjálfur velur þó hentuga dagsetningu og geta ýmsar ástæður verið fyrir því að flýta eða seinka töku lífeyris. Sumir kjósa að seinka töku til að draga úr skattgreiðslum og aðrir flýta henni til að hafa betra aðgengi að lausafé, greiða niður skuldir, fjárfesta eða sinna áhugamálum. Ekkert eitt er rétt hvað þetta varðar þar sem aðstæður okkar eru ólíkar.

Tryggingastofnun

Mikið er rætt um hvernig Tryggingastofnun ætti að vera en allt of lítið um hvernig hún raunverulega er. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga 67 ára og eldri fá mánaðalegar greiðslur úr kerfinu og þurfa að kunna að fóta sig innan þess.

Í stuttu máli má segja að stofnuninni sé ætlað að jafna tekjur fólks á lífeyrisaldri. Þetta gerir hún með greiðslu svokallaðs ellilífeyris auk heimilisuppbótar fyrir þá sem búa einir en tekjutengdum skerðingum er svo beitt til að vísa meira fjármagni til þeirra tekjulægri. Þó svo kerfið hafi verið einfaldað til muna um árið er það enn nokkuð flókið og tekur mjög örum breytingum. Gott er að nýta reiknivél stofnunarinnar til að áætla greiðslur að gefnum ákveðnum forsendum og kynna sér málin vel og vandlega áður en sótt er um, en það er eins og fyrr segir, hægt að gera á aldursbilinu 65-80 ára.

Fjöldi spurninga vaknar þegar TR berst í tal og er ekki úr vegi að líta á nokkrar þeirra:

  • Skerðir TR ekki krónu á móti krónu? Nei, sem betur fer er engin slík skerðing á greiðslum ellilífeyris stofnunarinnar. Skerðingar eru nær því að vera tæpar 30 krónur á móti hverjum 100, þegar tekið er tillit til skatta. Það er því ekki svo, eins og oft er haldið fram, að hagkvæmara sé að fela peninga fyrir TR því vextirnir séu hvort eð er teknir. Auk þess skal tekið fram að stofnunin skerðir ekki vegna eigna, einungis tekna.

  • Hvað gerist ef ég sel sumarbústaðinn? Hagnaður af sölu frístundarhúsnæðis getur skert greiðslur með sama hætti og aðrar tekjur. Því verða margir fyrir umtalsverðum skerðingum við sölu sumarbústaða og gæti verið lag að ráðfæra sig við endurskoðanda áður en lagt er í svo stóra sölu. Undanskilin skatti og skerðingum hjá TR er þó sala frístundahúsnæðis að því gefnu að eigandi hafi átt það í 7 ár eða lengur og ekki leigt það út á tímabilinu. Sala íbúðarhúsnæðis, sem verið hefur lögheimili okkar í tvö ár hið minnsta, hefur loks engin áhrif.

  • Hvernig kemst ég hjá því að fá stóra endurkröfu frá stofnuninni? Þekktar eru sögurnar af tekjulágu fólki sem fær stóran reikning frá TR og slík tilvik eru því miður nokkuð mörg. Álíka margir fá raunar endurgreiðslu og kröfu ár hvert og á slíkt rætur að rekja til skerðinga. Þar sem greiðslur TR eru tekjutengdar þarf viðtakandi greiðslnanna að upplýsa um framtíðartekjur sínar og slíkt gerir hann með því að fylla út tekjuáætlun í upphafi hvers árs. Algengt er þó að slíkri áætlun sé ekki skilað og þá getur misræmi orðið á milli rauntekna og þess sem miðað er við þegar greitt er. Með því að skila áætlun í upphafi hvers árs og leiðrétta hana þegar aðstæður breytast má draga úr líkum á endurgreiðslukröfu.

  • Má vinna samhliða greiðslum frá TR? Já það má vinna og hafa launin engin áhrif upp að frítekjumarki. Miðað er við 200.000 krónur að hámarki á mánuði eða 2.400.000 krónur á ári. Launatekjur umfram frítekjumark skerða greiðslur TR með sama hætti og aðrar tekjur.

Hvað ef eitthvað kemur upp á?

Þar sem lífeyrisréttindi eru einstaklingsbundin ætti sambúðarfólk að líta vandlega á réttindi hvors um sig ef annað fellur frá eða dvelur á hjúkrunarheimili. Réttindi geta verið mjög misjöfn og þá er gott að kynna sér þær leiðir sem færar eru til að auka öryggi og bæta fjárhagsstöðu þess verr settari. Það má gera með einföldu umboði svo gangi megi á sparnað eða jafnvel með skiptingu lífeyrisréttinda. Slík skipting getur hvort sem er verið á mánaðalegum útgreiðslum lífeyrissjóða, sem að allt að hálfu má greiða inn á reikning maka eða framsal hluta uppsafnaðra réttinda. Lífeyrissjóðirnir veita ráðgjöf og aðstoð við skiptingu réttinda en gott er að kynna sér slíkt snemma.

Fjármál við starfslok eru flókin og það er erfitt að ryðjast í gegnum þann frumskóg einn og óstuddur. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og það kostar ekkert nema tíma að leita sér ráðgjafar og aðstoðar. Ein besta ákvörðunin sem við tökum í aðdraganda starfsloka er því að gefa okkur nægan tíma við undirbúninginn og vanda okkur eins og kostur er. Það dregur úr líkum á mistökum, losar um óþægindahnútinn í maganum og fjölgar vonandi krónum í vasann.


Greinin birtist fyrst í STF tíðindum, riti Sambands stjórnendafélaga

Comentários


bottom of page