top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Pen­inga­hlið Of­ur­skál­ar­inn­ar

Þetta er ein stærðarinnar neysluveisla. Hvort eitthvað sannleikskorn sé í þeirri fullyrðingu að leikurinn um Ofurskálina (Super Bowl) sé stærsti sjónvarpsviðburður ársins veit ég ekki en hann er sannarlega merkilegur fyrir margra hluta sakir.


Rándýrir miðar

Ólíklegt er að áhugasömum Íslendingum takist að krækja í miða á leikinn í fyrstu atrennu. Eftirmarkaðurinn er þó virkur en verðið slíkt að kaupum myndi sennilega fylgja símtal frá seðlabankastjóra. 1,4 milljónir króna kosta slíkir miðar að meðaltali nú í ár og hafa þeir aðeins einu sinni verið dýrari, þegar Patriots báru sigurorð af Seahawks árið 2015. Ef markmiðið er að eyða sem mestu kosta bestu sætin þó 6,4 milljónir króna.



Aðeins 72.000 áhorfendur munu sjá leikinn með berum augum. Um 150 milljónir munu þó fylgjast með honum í sjónvarpi og þar er stóru fjárhæðirnar að finna.


Dýrar sekúndur

Það kostar sitt að auglýsa í sjónvarpi meðan á leiknum stendur og í Bandaríkjunum eru auglýsingarnar orðnar viðburður í sjálfu sér. Dýrastar eru þær sem vara í hálfa mínútu og hefur verð þeirra ríflega tvöfaldast vestanhafs frá árinu 2010 og aldrei verið jafn hátt og nú. Þessar 30 sekúndur kosta hátt í milljarð króna og segir sig sjálft að sala viðkomandi vöru eða þjónustu þarf að aukast hressilega til að réttlæta svo háan reikning. Til viðbótar við birtingarkostnað hafa auglýsendur varið um 100 milljónum króna í að vekja athygli á auglýsingunum í aðdraganda leiksins og þá er ótalinn framleiðslukostnaðurinn.





Reynsla bílaframleiðenda af þessum dýru auglýsingum virðist vera góð því þeir vörðu um 16 milljörðum króna í slíkar auglýsingar í fyrra og svipað verður væntanlega upp á teningnum nú í ár. Í heildina hafa auglýsingatekjur bandarískra sjónvarpsstöðva vegna leiksins numið um fjórföldum auglýsingamarkaði Íslands á heilu ári og munar um minna.


Eitthvað til að narta í

Meðal þess sem einkennir Ofurskálarhelgina er brjóstsviði, kjúklingavængir og allt of mikil einkaneysla. Samkvæmt könnun samtaka verslunarinnar í Bandaríkjunum (National Retail Federation) áætla fullorðnir íbúar landsins að neysla hvers og eins þeirra tengd leiknum komi til með að nema að meðaltali um 12.000 krónum þetta árið. Að raunvirði hefur nokkuð dregið úr neyslunni á undanförnum árum en nógu mikil er hún nú samt og lítur út fyrir að hún jafngildi yfir 2.300 milljörðum íslenskra króna í heild.


Bandarískir áhorfendur ætla að sporðrenna 1,4 milljörðum kjúklingavængja, hamra í sig 1,1 milljarði lítra af bragðlitlum bjór, japla á 13.000 tonnum af kartöfluflögum og veðja að auki 25 milljörðum króna á úrslit og atvik leiksins.

Verði þeim að góðu.


Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst á vef bankans.

Comments


bottom of page