top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Netflix veðjar á mikinn vöxt á streymismarkaði

Netflix varði um 1.000 milljörðum króna í sjónvarpsefni á síðasta ári. Það jafngildir 8.000 krónum á hvern áskrifanda. Þrátt fyrir talsverðan útgjaldavöxt vaxa tekjurnar einnig hratt og það líst markaðsaðilum vel á. Frá áramótum hefur hlutabréfaverðið hækkað um þriðjung og tífaldast undanfarin fimm ár.


Nú eru spennandi tímar á streymismarkaðinum og alls óvíst hvernig þróunin verður næstu misserin. Facebook hefur tilkynnt að um 100 milljörðum króna verði varið til gerðar sjónvarpsefnis á þessu ári og Amazon setur stefnuna á 800 milljarða, sem er tæplega tvöföldun frá síðasta ári. Þar að auki verður afar áhugavert að fylgjast með áformum Disney, en með kaupunum á 21st Century Fox fylgir 30% eignarhlutur í streymisveitunni Hulu, sem bætist við þau 30% sem félagið á nú þegar. The Handmaid’s Tale er meðal þess sjónvarpsefnis sem Hulu eyddi 250 milljörðum króna í á síðasta ári og vakti mikla lukku og ef Disney hefur áhuga á að nýta sér veituna getum við bókað að sú upphæð mun hækka. Með öll þessi vörumerki, Disney, Pixar, Marvel, Star Wars, ESPN, Simpsons o.fl., verður Disney án alls vafa risi á streymismarkaðnum, hvort sem Hulu verður dreifileiðin eða einhver ný og spennandi veita. Samkeppnin er því að aukast til muna og áhersla Netflix á hraðan vöxt ætti ekki að koma á óvart.


Töluverð áhætta er þó falin í þessum hraða vexti sem krefst mikillar skuldsetningar og er sjóðstreymi fyrirtækisins afar neikvætt, um 200 milljarðar króna á síðasta ári og reiknað er með að gengið verði á um 300-400 milljarða í reiðufé í ár. Ef fyrirtækið heldur áfram að vaxa svona hratt er það í góðu lagi. En það er ansi stórt „ef“ þegar litið er til samkeppninnar.


Bestu tækifærin til vaxtar liggja utan Bandaríkjanna. Áskrifendum fjölgaði um 23 milljónir á síðasta ári, þar af voru 80% vaxtarins utan heimamarkaðar og nú er minnihluti viðskiptavina Netflix í Bandaríkjunum. 120 milljónir viðskiptavina virðast í dag til í að greiða fyrir áskrift að Netflix, en hvað ætli gerist árið 2018? Er raunhæft að hvort tveggja fjölgi áskrifendum og að þeir séu tilbúnir að greiða fyrir fleiri veitur?


Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi

Comments


bottom of page