top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Hvers vegna er Apple svona verð­mætt?

Í gamalli dæmisögu úr Gyðingdómi eru rabbínar tveir beðnir um að þylja upp allt innihald trúarritanna Tóra standandi á öðrum fæti. Annar þeirra bregst hinn versti við en hinn segir slíkt þó lítið mál: „Ekki gera öðrum neitt sem þú fyrirlítur sjálfur. Þannig er Tóra í heild sinni, allt annað eru athugasemdir“.


Þar til nýlega hefði mátt beita svipaðri nálgun á rekstur tæknirisans Apple. Þrátt fyrir allar tölvurnar, úrin, heyrnartólin, tónlistina og þar fram eftir götunum mátti segja að Apple væri iPhone, allt annað væri til skrauts. Tekjur og arðsemi fyrirtækisins mátti rekja til þessarar arðbærustu neytendavöru sögunnar og erfiðlega gekk að útvíkka tekjustofna.Það heyrði því heldur betur til tíðinda þegar fréttir bárust af því í liðinni viku að frá því í mars hafi hlutabréfaverð Apple tvöfaldast og markaðsvirðið væri nú skriðið upp fyrir 2.000 milljarða dollara. Það er níutíuföld landsframleiðsla Íslands. Þrjátíufalt heildarfasteignamat landsins. 45 sinnum meira en áætlaðar eignir Jóakims Aðalandar. Það er erfitt að átta sig á hvernig réttlæta megi slíkt verðmat en vissulega hefur fjármagn sótt í ætlað skjól stórra tækifyrirtækja að undanförnu og nýlegt uppgjör fyrirtækisins var óvenju gott.


Tvennt mætti þó nefna til viðbótar sem stutt mætti þá stemningu sem nú virðist vera meðal fjárfesta. Ég nefndi að þar til nýlega hafi Apple staðið og fallið með iPhone. Síminn er vissulega enn flaggskip fyrirtækisins og skilar stórum hluta hagnaðar og hátt í helmingi tekna í kassann, en hlutfallið var 70% fyrir einungis tveimur árum. Skýjalausnir og ýmiss þjónusta hefur vaxið hratt og svo virðist sem loks hafi tekist að fjölga tekjustofnum nægjanlega og þetta gríðarstóra fyrirtæki geti þrátt fyrir allt enn vaxið.
Stórmerkileg geta Tim Cook og félaga til að skila hagnaði er loks athyglisverð svo ekki sé meira sagt. Arðsemin hefur nær aldrei verið meiri og hagnaður það sem af er ári nemur um 45 milljörðum dollara eða yfir 6.000 milljörðum íslenskra króna. Á tímum sem þessum þarf kannski ekki að koma á óvart að fjárfestar renni hýru auga til fyrirtækja sem sannað hafa getu sýna til arðbærs og stöðugs rekstrar. En hversu langt eru þeir tilbúnir að ganga? Í það minnsta nógu langt til að tvöfalda hlutabréfaverðið á hálfu ári og gera félagið hið verðmætasta á skráðum mörkuðum.


Pistillinn er birtur með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.

Comments


bottom of page