Reiknað er með að heildarkostnaður við framleiðslu síðustu þáttaraðar Game of Thrones, sem lauk nú á sunnudaginn, hafi numið um 90 milljónum dollara, eða 11 milljörðum króna. Kostnaður hvers þáttar er með því mesta sem sést hefur og í fljótu bragði virðist sem læknaþættirnir ER séu einir um að hafa verið dýrari þegar mest lét.
Þó að Game of Thrones hafi nú lokið göngu sinni er framleiðsla rándýrra sjónvarpsþátta rétt að byrja, enda vilja allir eignast sitt eigið Game of Thrones. Þannig er Jeff Bezos, eigandi Amazon, sagður hafa komist að orði í aðdraganda þess að greiddar voru 250 milljónir dollara fyrir framleiðslurétt þáttaraðar sem byggð verður á Hringadróttinssögu. Reiknað er með að framleiðslukostnaður þáttanna nemi um 750 milljónum dollara til viðbótar sem gerir þá tæplega tvöfalt dýrari en Game of Thrones.
Disney ætlar sér auk þess stóra sneið af sjónvarpskökunni þegar nýrri streymisveitu fyrirtækisins, Disney+, verður hleypt af stokkunum í haust. Þá verða meðal annars Star Wars þættirnir um manninn frá Mandalore frumsýndir og mun hver hinna tíu þátta kosta 10 milljónir dollara. Með tilkomu Disney+ missir Netflix vinsælt dagskrárefni af veitu sinni en bætir upp fyrir það með því að verja hátt í 2.000 milljörðum króna í kaup á efni í ár. Apple hefur innreið sína á markaðinn með streymisveitu í haust og verður um 250 milljörðum króna varið til efniskaupa.
En hvað er næsta Game of Thrones? Líklega er svarið Game of Thrones. Það ætti ekki að koma á óvart að HBO mun áfram veðja á vinsældir hugarheims George R. R. Martin. Nú er kappinn að skrifa nýja þætti og reiknað er með að kostnaður við framleiðslu hvers þeirra verði á við dýrustu þáttaraðir.
Star Wars, Game of Thrones og Lord of the Rings. Það er ekki beint verið að finna upp hjólið, en það verður öllum sama um það þegar tekjurnar streyma inn.
Greinin birtist fyrst á Vísi
Comments