top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Gullið heim

Er ekki tímabært að við veltum fyrir okkur heimsmeistaratitli í sumar?


Verðlaunagripurinn, sem Aron tekur við, var hannaður af Ítalanum Silvio Gazzaniga og fyrst afhentur Franz Beckenbauer, fyrirliða Vestur-Þjóðverja, á HM 1974 í Mexíkó. Fyrirrennari hans var Jules Rimet bikarinn, en þegar Brasilíumenn urðu meistarar 1970 var þeim afhentur hann til eignar. Ekki fór betur en svo að árið 1983 var honum rænt og almennt er talið að hann hafi verið bræddur niður og gullið selt.


Það er nóg af gulli í nýja bikarnum. Um 5 af 6,5 kílógrömmunum eru 18 karata gull (um 75 prósent hreint). Eins og aðrir málmar sveiflast verðmæti gulls talsvert í verði og því getum við leikið okkur að því að áætla verðmæti gullsins á verðlagi dagsins í dag í þau 11 skipti sem hann hefur verið reistur til himins að loknum úrslitaleik HM. Í dag má reikna með að 16,2 milljónir króna fengjust fyrir gullið, svipað og á árunum 2010 og 2014, þrátt fyrir afar miklar verðsveiflur á milli móta, til dæmis miklar verðhækkanir 2011. Lágpunkturinn var í höndum Didier Deschamps í Frakklandi 1998 og Cafú í Suður-Kóreu og Japan 2002 þegar verðmætið var undir 5 milljónum króna.


Árið 1974 var verðmæti gullsins 8,9 milljónir króna á verðlagi 2018. Hækkunin nemur því 83 prósentum, eða 1,4 prósenta raunávöxtun á ári. Þokkalegt, en kannski hægt að gera betur.


Ef strákarnir okkar eru að velta fyrir sér að bræða gullið og selja yrði það þó ekki nema dropi í hafið sé litið til gullforða landsins, eða um 0,2 prósent aukning. Alþjóðlega skömmin sem óhjákvæmilega fylgdi væri varla þess virði. Skilaboðin okkar til strákanna ættu því að vera: Ekki gera það.


Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Comments


bottom of page