Hvaða hugtak notum við þegar báðir vinna leik? Ef ykkur dettur eitthvað heppilegt í hug væri við hæfi að nota það um vel heppnuð viðskipti George Lucas og Disney um árið.
Í næstu viku verður þriðja og síðasta kvikmynd þriðja þríleiks Star Wars frumsýnd og nýverið hóf The Mandalorian göngu sína á nýrri streymisveitu Disney. Þar á bæ hefur hundruðum milljarða verið varið í að byggja upp og dreifa vörumerkinu. Hver dropi er kreistur úr R2D2 og félögum og almennt virðist það hafa gengið afar vel.
Þær fjórar kvikmyndir sem þegar hafa verið sýndar í kvikmyndahúsum í tíð Disney reiknast okkur til að hafi skilað fyrirtækinu um 350 milljarða króna hagnaði og þá eru tekjur af streymi myndanna, varningi og sjónvarpsefni ekki taldar. Slagar afgangur af miðasölu einn og sér því hátt í þá 500 milljarða króna sem Lucas fékk við vistaskipti Lucasfilm yfir til Disney á haustmánuðum 2012. Helmingnum stakk hann í vasann en hinn helminginn fékk kappinn í formi hlutabréfa, sem síðan hafa þrefaldast í verði. Þó eitt og eitt andvarp heyrist frá Skywalker Ranch getur Lucas tæplega kvartað yfir viðskiptum sínum við Disney. Þar á bæ skellihlær fjármálasviðið sömuleiðis þrátt fyrir að viðtökur skemmtigarðsins Galaxy’s Edge og kvikmyndarinnar um Han Solo hafi verið nokkuð undir væntingum þar sem heildarávinningurinn af yfirtöku vörumerkisins gefur Disney nær ótakmarkaða tekjumöguleika til framtíðar. Og þeir möguleikar verða svo sannarlega nýttir. Þar liggur mergurinn málsins og ástæða þess að báðir aðilar græddu svo óskaplega á viðskiptunum 2012.
Stærð og fjárhagslegur styrkur Disney gefur fyrirtækinu nefnilega færi á að gera svo miklu meira úr vörumerki Star Wars en Lucas gat sjálfur. Hvort sem okkur líkar betur eða verr mun Disney halda áfram að breiða yfir okkur alls kyns skemmtun og það er ekki ólíklegt að við tökum fagnandi þátt í því og millifærum til þeirra dágóðan skammt launanna okkar. Spurningunni í titli greinarinnar mætti því svara játandi. Það græddu allir á Star Wars. Nema sá sem greiddi 1.000 krónur fyrir bláa mjólk í skemmtigarðinum. Hann tapaði.
Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst í Fréttablaðinu
Comentários