top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Er póst­ur­inn frá Póst­in­um?

Ég sá malt og appelsín dós í sjálfsala í gær. Fyrr en varði var ég farinn að velta fyrir mér ásættanlegum tíma til að kveikja jólaljósin og fara að huga að jólagjöfunum. Ef til vill hefðu þessar hugleiðingar mínar mátt bíða í tvær, þrjár vikur en hvernig svo sem við lítum á það styttist í jólin með hverjum deginum sem líður og jólunum fylgja að sjálfsögðu jólagjafir.

Stór hluti jólaverslunar fer nú fram á vefnum og eykst hlutdeild netverslunar í jólagjafainnkaupum Íslendinga hratt. Af innlendri verslun hefur hlutfall netverslunar vaxið úr 2-4% árið 2019 í 5-7% nú árið 2021 og hefur slíkum póstsendingum að utan auk þess fjölgað til muna. Því má búast við því að fjölmörg okkar komi til með að versla jólagjafirnar á vefnum og þá borgar sig að setja öryggið á oddinn.Hver er að hafa samband?

Sögur af netsvindli tengdu póstsendingum rata í fjölmiðla með reglulegu millibili og verður umfjöllunin vonandi til þess að við séum sem flest á varðbergi. Sérstaklega er þó tilefni til að hafa augun opin þegar kemur að netverslun. Eins og lúsin á leikskólanum virðast þrjótarnir alltaf finna sér einhverja leið til að valda usla og þeir hafa svo sannarlega nýtt sér aukna verslun okkar á vefnum. Þannig hefur mikið borið á fölsuðum tölvupóstum og smáskilaboðum sem virðast berast frá póstfyrirtækjum á borð við Póstinn og DHL. Viðtakandi skilaboðanna er yfirleitt sendur á svikasíðu sem, rétt eins og upphaflegu skilaboðin, virðist við fyrstu sín ófölsuð. Þar er til dæmis óskað eftir greiðslukortaupplýsingum og ef bitið er á agnið eru þrjótarnir fljótir að láta greipar sópa.

Því miður tapast hér á landi háar fjárhæðir með þessum hætti ár hvert. Svikin geta virst mjög sannfærandi og þær vefsíður og þau samskipti sem notuð eru við svikin verða sífellt vandaðri. Því verðum við að hafa varann á. Lítum á póstfang þess sem sendir og símanúmerið. Göngum úr skugga um að sendandinn sé raunverulega sá sem hann segist vera og höfum í huga að ólíklegt er að fyrirtæki sendi hlekki á vefi þar sem óskað er eftir greiðsluupplýsingum.

Sleppum því að gleðja netþrjótana þessi jólin.


Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst á Vísi.

Comments


bottom of page