Í nóvember 1995 þótti Seðlabanka Íslands nóg komið. Fram að því höfðu Íslendingar þurft að draga fram heila tvo þúsund króna seðla ef varan kostaði 2.000 krónur. Frá árinu 1986 hafði vissulega verið hægt að greiða með 5.000 króna seðli en ekki var það nú betra, þá fékk neytandinn þrjá seðla til baka í andlitið. Þessu átti splúnkunýr 2.000 seðill að bjarga. Við sama tilefni hætti bankinn að bjóða upp á nýja 100 króna seðla og sló mynt í staðinn.
Á þeim fjórtán árum sem liðin voru frá því tvö núll voru tekin af krónunni og Kristín Þorkelsdóttir hóf að hanna nýja seðla, hafði ýmislegt gengið á í seðla- og klinkbransanum hér á landi. 10 krónu seðillinn var prentaður fram til 1984 og 50 krónurnar til 1987. Merkilegt nokk voru 10, 50 og 100 krónu seðlar þó enn brúklegir til sumarsins 2007, þegar frestur til innlausnar rann út. Nýir seðlar og myntir í umferð voru því ekkert nýtt árið 1995, ef svo má að orði komast.
Lítt notaðir seðlar
2.000 krónurnar voru nú ekki mikið notaðar. Einungis 104.500 þeirra eru í dag í vösum fólks, hólfum og þar sem við náum ekki að teygja okkur í bílnum, samanborið við tæpar tvær milljónir þúsund króna seðla. En ef frá er talin útgáfa 10.000 króna seðilsins haustið 2013, þegar prentun 2.000 krónanna var hætt, hefur ekkert gerst í nýjum tegundum reiðufjár hér á landi í tæpa þrjá áratugi.
Þegar 100 krónu myntin var fyrst slegin nam andvirði hennar 318 krónum í dag, sé leiðrétt fyrir þróun verðlags. Fyrir 10.000 krónu seðil mátti kaupa þriðjungi meira við útgáfu en þegar við drögum hann fram núna. Við skulum þó ekki láta eins og ekkert hafi breyst varðandi notkun okkar á peningum. Greiðslukort og rafrænir greiðslumátar hafa nær alfarið tekið við af seðlum og mynt í daglegum viðskiptum. Tæpir tveir þriðju hlutar þess verðmætis sem finna má í íslensku reiðufé hér á landi er í formi 10.000 króna seðla og má ætla að stór hluti þeirra sé hugsaður til geymslu verðmæta fremur en daglegra viðskipta.
Ekki leiðrétt fyrir verðbólgu
Þó enn megi finna talsvert verðmæti á peningaseðlum víða um heim hefur verðgildi þeirra verðmætustu víða varið minnkandi. Í Sviss eru fjármál almennt vissulega nokkuð spes og þar má vísa fram andvirði ríflega 150.000 króna á stökum seðli en það er þó undantekningin. Í Bandaríkjunum hefur 100 dollara seðillinn verið verðmætastur útgefinna seðla frá 1969, þegar verðgildi hans var ríflega áttfalt það sem það er í dag. Þá hætti evrópski seðlabankinn útgáfu 500 evru seðla fyrir þremur árum og við endurhönnun seðlanna, sem nú stendur yfir, er líklegt að ekki verði farið hærra en í 200 evrur.
Við getum haft ólíkar skoðanir á mikilvægi áframhaldandi útgáfu reiðufjár en ljóst er að notkun þess hefur breyst til muna frá árinu 1995 þegar ástæða þótti til að bæta nýjum gerðum af íslenskum peningum við flóruna. Sú breyting er meðal þess sem skýrir tregðu stórra seðlabanka við að leiðrétta fyrir verðbólgu með útgáfu sífellt stærri seðla og mynta. Vísað hefur verið í svarta hagkerfið, fjármögnun glæpastarfsemi og fleira þegar verðgildi núverandi tegunda reiðufjár hefur verið leyft að rýrna óáreittu í verðbólgunni. Það er aldrei að vita nema 10.000 króna seðillinn verði síðasta gerð af íslensku reiðufé sem prentuð verður og núverandi seðlar og mynt fái að fjara út. Það kostar um þrjár krónur að slá hverja krónumynt og vonandi erum við því hætt slíkum æfingum en áður en klinkið fuðrar að fullu upp í verðbólgunni gæti verið ástæða til að líta undir sessurnar í sófanum, því enn eru tæpar 900 milljónir króna í umferð í formi 1, 5 og 10 krónu mynta.
Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst í Viðskiptamogganum
Comments