top of page
  • Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Borg­ar sig að fá vexti á líf­eyris­aldri?

Greinin birtist fyrst árið 2018 og byggir á þeim reglum sem í gildi voru á þeim tíma. Tölur um frítekjumark vaxta voru uppfærðar vorið 2023.


Getur verið að vegna skerðinga Tryggingastofnunar (TR) og hækkunar fjármagnstekjuskatts sé jafnvel betra fyrir fólk á eftirlaunaaldri að geyma sparifé sitt undir koddanum?


Verðbólgan brennir reiðuféð

Byrjum fyrst á koddanum eða bankahólfinu. Vegna verðbólgu getur verið dýrt að geyma reiðufé um lengri tíma. Verðgildi peninganna brennur smám saman upp og má sem dæmi nefna að reiðufé sem sett var undir koddann í ársbyrjun 2009 hefur nú rýrnað um ríflega 40% að raunvirði. Því miður er því nokkur áhætta fólgin í geymslu reiðufjár.


Helstu áhrif vaxtatekna

Vextir og aðrar fjármagnstekjur hafa engin áhrif á greiðslur úr lífeyrissjóði eða séreignarsparnaði.


Greiðslur ellilífeyris TR skerðast, en einungis vegna hluta vaxtanna, ekki höfuðstólsins. Það skiptir TR því ekki máli hvað við eigum, heldur hvaða tekjur við fáum.


Fjármagnstekjuskattur er sömuleiðis greiddur af vöxtum, en vegna frítekjumarks getur stór hluti eða allur skatturinn fengist endurgreiddur.


Skerðingar TR

Sé eftirlaunaþegi innan þeirra tekjumarka að hann fái greiddan ellilífeyri frá TR eru skerðingar vegna vaxta 45% fyrir skatt hjá sambúðarfólki en 56,9% hjá þeim sem búa einir og fá greidda heimilisuppbót. Staðgreiðsla er þó tekin af greiðslum stofnunarinnar og eru nettó skerðingar því umtalsvert lægri.


Fjármagnstekjuskattur

Við skerðingar TR bætist svo greiðsla fjármagnstekjuskatts. Skattprósentan er í dag 22% og hefur hækkað í skrefum úr 10% undanfarinn áratug. Sérstakt frítekjumark hefur hins vegar verið tekið upp og er það 300.000 kr. á ári hjá einstaklingi og 600.000 hjá sambúðarfólki. Frítekjumarkið er endurgreitt með álagningu og getur þar stór hluti vaxtanna fengist endurgreiddur. Sem dæmi má nefna að ef hjón ávaxta 20.000.000 kr. með 3% ávöxtun fást 600.000 kr. fjármagnstekjur. Sú upphæð rúmast innan frítekjumarksins og fæst því allur skatturinn endurgreiddur. Athugið að þetta frítekjumark er eingöngu hjá skattinum en ekki hjá TR.


Það er svo sannarlega hægt að ræða fram og til baka hvort skerðingar séu of miklar. Flestir geta þó verið sammála um að einhverjir vextir eru betri en engir. Þrátt fyrir skerðingar TR og fjármagnstekjuskatta verður einhverjar afgangur af vaxtatekjunum, sem hjálpar í það minnsta við að varðveita kaupmátt sparifjár.


Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst á vef bankans.

Comments


bottom of page