top of page
Writer's pictureBjörn Berg Gunnarsson

Ísland á einn og hálfan milljarð

Við sjálfstæði Bandaríkjanna 1776 var landið einungis lítil ræma við austurströnd Norður-Ameríku. Markmiðið var þó að ryðjast vestur með hraði og í forsetatíð Thomas Jefferson var handsalaður samningur sem varð grunnurinn að yfirburðum ríkisins í álfunni og fer í sögubækurnar sem ein bestu kaup sem gerð hafa verið.


Frakkar höfðu nýlega tekið við Louisiana að nýju frá Spánverjum, landsvæði sem náði yfir rúmar 2 milljónir ferkílómetra lands, allt frá New Orleans í suðri norður til Kanada. Jefferson vildi New Orleans og þar með lykilstöðu á Mississippi-ánni og grunaði að Napóleon skorti aura til að fjármagna stríðsrekstur sinn. Þegar samskipti hófust um málið milli þjóðanna árið 1803 var ljóst að Frakkar höfðu gefist upp á stöðu sinni í álfunni. Þeir voru ekki einungis tilbúnir að selja New Orleans heldur mátti Jefferson hirða allt heila klabbið, fyrir rétt verð.


Rétt verð reyndist vera ótrúlega lágt, 15 milljónir dollara. Á verðlagi dagsins í dag eru það 33 milljarðar króna, rétt rúmlega einn Neymar. Og þannig var þetta handsalað. Fermetraverðið var á pari við að heilt Ísland kostaði einungis 1,6 milljarða króna. Þjóðhátíðardaginn 4. júlí 1803 lásu íbúar Bandaríkjanna í blöðunum að landið væri tvöfalt stærra. Degi síðar fengu Meriwether Lewis og William Clark fyrirmæli um að kortleggja þessa nýfengnu viðbót og rúmlega það, allt vestur að Kyrrahafi.


Það er erfitt að ímynda sér sögu Bandaríkjanna án kaupanna á Louis­iana. Útþenslustefnan hélt áfram í kjölfarið en án þessara mögnuðu kaupa árið 1803 væri saga heimsmála mögulega allt önnur í dag.


Greinin er birt með leyfi Íslandsbanka og birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi.

Comments


bottom of page